„Það sem ég er að vísa til eru auðvitað húsnæðismálin, ég er auðvitað ekki að tala um alla flokka sem eru í stjórnarandstöðu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, frambjóðandi Flokks fólksins.
„Og að sjálfsögðu ekki Flokk fólksins,“ segir Ragnar og hlær.
Blaðamaður mbl.is sló á þráðinn til Ragnars til að leita frekari skýringa á Facebook-færslu hans í dag þar sem hann sagði stjórnmálin tala eins og ríkisfjármálin væru helsta áhrifavald og lausn verðbólgunnar.
Sagði Ragnar það eiga að vera öllum kunnugt hverjar orsakir verðbólgunnar væru enda séu þær greindar lið fyrir lið hjá Hagstofu Íslands.
Sagði hann mögulega skýringu á þeirri umræðu, sem honum þótti viðhöfð í kappræðum RÚV í gærkvöldi, vera að stjórnarandstöðuflokkarnir, sem berjist nú um hylli kjósenda, beri höfuðábyrgð á stöðunni og vandanum.
„Það sem ég er auðvitað að benda á er að þeir flokkar sem hafa stjórnað m.a. borginni Framsókn, Viðreisn, Píratar og Samfylkingin hafa ekki viljað víkja frá þéttingarstefnunni,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.
Rót vandans sé fyrst og fremst húsnæðisskortur að sögn Ragnars. Sá vandi verði ekki leystur nema brotið verði nýtt land og farið í stórfellda uppbyggingu á húsnæði sem fólk hafi efni á að kaupa og leigja.
Þrátt fyrir að íbúðafélög verkalýðshreyfingar á borð við Bjarg og Blæ hafi unnið að uppbyggingu hagkvæms húsnæðis, með góðum stuðningi borgarinnar, þá hafi það lítið að segja þegar horft sé á umfang vandans á meðan þéttingarstefnan sé enn við lýði.
„Ég er ekki á móti þéttingarstefnunni þannig séð en það er auðvitað ódýrast fyrir borgina að byggja á þéttingarreitum og dýrara að brjóta nýtt land.“
„Það þýðir ekki bara að fela sig á bak við það að hér sér nóg af lóðum eða samþykkt skipulag fyrir lóðir eða byggingar á reitum þar sem á eftir að rífa húsnæði og byggja aftur,“ segir Ragnar.
Hann kveðst þó ekki vera að reyna að úthrópa einhverja sökudólga heldur geri hann ákall um þverpólitíska sátt hvað varði húsnæðisuppbyggingu.
„Hér er allt stopp út af vaxtamörkum sem að borgin virðist ekki vilja kvika frá. Vaxtamörk sem voru sett í samkomulagi fyrir hátt í tíu árum síðan,“ segir Ragnar.
Hann bendir á að fólksfjölgunarspáin sem það samkomulag byggi á hafi verið um helmingi meiri en gert var ráð fyrir á þeim tíma.
Færslu Ragnars má lesa í heild sinni hér fyrir neðan: