Verkföll lækna skipulögð í lotum um allt land

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef kemur til verkfallsaðgerða lækna, sem eiga að hefjast 18. nóvember, fara þær fram í lotum aðra hverja viku fram að jólum og beinast að einstökum sjúkrahúsum, deildum Landspítalans og heilbrigðisstofnunum og standa yfir í einn sólarhring á hverjum stað. Læknafélag Íslands hefur birt yfirlit yfir aðgerðaáætlunina.

Í fyrstu verkfallsvikunni eru verkföll boðuð fjóra daga í röð. Fyrsta verkfallsdaginn, mánudaginn 18. nóvember, leggja læknar niður störf á skurðlækninga-, skurðstofu- og gjörgæsluþjónustu Landspítalans en þó ekki læknar sem starfa við svæfingar og gjörgæslu. Verkföll eru boðuð sama dag við geðþjónustu Landspítalans, hjá embætti landlæknis, á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Ráðgjafar- og greiningarstöð.

19. nóvember kemur röðin að Sjúkrahúsinu á Akureyri og læknar sem starfa við svæfingar og gjörgæslu á skurðlækninga-, skurðstofu- og gjörgæsluþjónustu Landspítala leggja einnig niður störf.

Á þriðja degi, 20. nóvember, verða verkföll lækna á Landspítalanum sem starfa á bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu og á hjarta-, augn- og krabbameinsþjónustu spítalans.

Daginn eftir beinast aðgerðirnar að heilbrigðisstofnunum allra landshlutanna, auk heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, klínískri rannsóknar- og stoðþjónustu Landspítalans og kvenna- og barnaþjónustu Landspítalans.

Hafi samningar ekki náðst eða verkfallsaðgerðum verið frestað þegar kemur fram í desember halda verkföllin áfram með sama fyrirkomulagi fram að jólum. 3. desember og 18. desember verða aftur sólarhringsverkföll á skurðlækninga-, skurðstofu- og gjörgæsluþjónustu Landspítala, geðþjónustu spítalans, hjá landlækni, á Heyrnar- og talmeinastöðinni og á Ráðgjafar- og greiningarstöð.

4. og 19. desember eru verkföll aftur boðuð á Sjúkrahúsinu á Akureyri og svæfinga- og gjörgæslulæknar á Landspítala leggja á ný niður störf.

5. og 16. desember ná verkföllin á nýjan leik til bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala og hjarta-, augn- og krabbameinsþjónustu spítalans.

Eftir áramót er gert ráð fyrir sólarhringslöngum verkföllum lækna í hverri viku út allan janúarmánuð á mismunandi starfsstöðvum.

Komi til vinnustöðvunar lækna á lágmarksmönnun á öllum stofnununum engu að síður að verða tryggð samkvæmt undaþágulistum sem liggja fyrir.

Rúmar tvær vikur til stefnu

Þegar atkvæðagreiðslu um verkföllin var lokið lýstu stjórn og samninganefnd LÍ þeirri von sinni að til verkfalla þurfi ekki að koma og að samningar náist áður en þau eiga að hefjast. Enn eru rúmar tvær vikur til að ná samningum áður en aðgerðirnar fara í gang.

Jákvæður tónn var í Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í gærmorgun sem sagðist í samtali við mbl.is vonast til þess að deiluaðilar nái saman áður en til verkfalls kemur. „Ég veit að það er góður gangur í viðræðunum og það eru forsendur til að semja,“ sagði hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka