Héldu samstöðufund við matvælaráðuneytið

Samstöðufundur um velferð gæludýra var haldinn í dag við matvælaráðuneytið.
Samstöðufundur um velferð gæludýra var haldinn í dag við matvælaráðuneytið. mbl.is/Arnþór

„Við ákváðum að halda samstöðufund til að sýna að við öll sem erum með gæludýr erum að reyna að standa saman í að hlúa að velferð þeirra,“ segir Guðbjörg Guðmundsdóttir gæludýraeigandi um samstöðufund sem haldinn var í dag klukkan 16. Hópur velgjörðamanna gæludýraeigenda stóð fyrir fundinn. 

Um viðburðinn stendur á Facebook að umræður fóru af stað hjá gæludýraeigendum eftir að Icelandair gekk frá kaupum á Airbus-flugvélum á vormánuðum síðasta árs um að aðstaða fyrir gæludýraflutninga sé ekki staðalbúnaður í þeim vélum.

Hafði hópurinn því áhyggjur og leitaði upplýsinga og svara og þrýsti á hagsmunafélög til aðgerða.

Margir voru mættir til að sýna samstöðu og að sjálfsögðu …
Margir voru mættir til að sýna samstöðu og að sjálfsögðu voru gæludýrin með í för. mbl.is/Arnþór

Urðu áhyggjur hópsins enn meiri þegar reglugerðarbreytingar, lagðar til af matvælaráðuneyti að beiðni Matvælastofnunar (MAST) voru gerðar í mars á þessu ári, að öllum flugfélögum væri bannað að flytja gæludýr til landsins í farþegarými og segir að það hafi þá helst verið vegna þess að misbrestur var á framkvæmd móttöku dýranna af hálfu Isavia.

Segir Guðbjörg í samtali við mbl.is að hópurinn hafi því skrifað bréf til Bjarna Benediktssonar sem síðar hafði heyrt í Jóni Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem boðaði hópinn til fundar klukkan 11 í morgun.

Jón er núna sérstakur fulltrúi Bjarna innan matvælaráðuneytisins. Bjarni tók við ráðuneytinu frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur er Vinstri græn vildu ekki vinna í starfsstjórn Bjarna.

mbl.is/Arnþór

Verður stofnaður starfshópur

Segir hún fundinn hafa verið góðan og kom það hópnum á óvart hve góð viðbrögð hann hafi fengið frá Jóni.

„Hann var mjög opinn fyrir öllum tillögum og öllum umræðum,“ segir Guðbjörg og heldur áfram.

„Hann gaf okkur vilyrði fyrir því, sem var okkar kappsmál, að það verði stofnaður starfshópur þar sem allir koma saman sem að hafa eitthvað um það að segja með innflutningsmál, útflutningsmál og einangrun.“

Segir hún að um væri að ræða hagsmunasamtök sem hópurinn myndi vonandi koma að ásamt Hundaræktarfélagi Íslands og hópnum Kynjaköttum sem er kattaræktarfélag Íslands. Auk þeirra hópa væru einnig í samtökunum aðilar frá einangrunarstöðum, matvælaráðuneytinu og MAST.

Segir Guðbjörg að meginmarkmið hópsins með fundinum hafi einmitt verið að fá að hafa einhver áhrif.

mbl.is/Arnþór

Verið að vinna í reglubreytingum

Um hvernig málið byrjaði segir Guðbjörg að hópurinn geri sér vel grein fyrir að Icelandair sé fyrirtæki sem ræður því sjálft hve mikla þjónustu það veitir.

„[...] en á sama tíma þrengja yfirvöld enn þá frekar að okkur sem erum að flytja inn hunda með því að banna hunda í farþegarými.“

Segir hún að allir minni hundar sem fluttir hafa verið til landsins hafi verið fluttir í farþegarými og þar sé þá stór hópur að detta út. 

Eftir fundinn í dag með Jóni segir Guðbjörg að matvælaráðuneytið sé nú byrjað að vinna í reglubreytingum sem muni koma til með að auðvelda gæludýraeigendum lífið.

„Það verður ekki svona stífur rammi um hvenær hundar koma inn í einangrunina heldur verður þetta meira þannig að þegar hundur lendir á landinu þá geti einangrunarstöð sótt hann og flutt hann í einangrunarstöðina og aðili innan MAST kemur og skoðar dýrið innan þriggja daga. Það er rosalegur munur fyrir okkur af því að áður voru þetta bara þrír dagar,“ segir Guðbjörg og bætir við að hópurinn sé afskaplega þakklátur þeim viðtökum sem hann fékk hjá matvælaráðuneytinu. 

Eftir fundinn með Jóni var svo buíð að boða til samstöðufundar klukkan 16 og eins og sjá má á myndum mætti fjöldi til fundarins og voru gæludýrin að sjálfsögðu tekinn með. 

mbl.is/Arnþór
mbl.is/Arnþór
mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert