Lögregla í kappi við innbrotsþjófa

Tilkynnt var um þjófnað úr matvöruverslun í hverfi 110 sem …
Tilkynnt var um þjófnað úr matvöruverslun í hverfi 110 sem var afgreitt af hálfu lögreglu á vettvangi með forráðamanni þjófsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talsvert var um innbrot og þjófnað víða um Reykjavík samkvæmt dagbók lögreglu sem greinir frá alls níu málum er varða slík brot.

Tveir gista í fangageymslum lögreglu sem hefur alls 95 mál skráð í kerfinu eftir daginn í dag.

Þýfið fannst í félagslegu úrræði

Á lögreglustöð 1 var meðal annars tilkynnt um innbrot í bifreið í hverfi 101.

Þýfið fannst þó í félagslegu úrræði í nágrenni við bifreiðina. Þýfinu var skilað til eiganda og málið er áfram í rannsókn.

Þá var lögregla með mikinn viðbúnað vegna konu í miklu ójafnvægi fyrir utan hús á Sólheimum í hádeginu. Hafði konan hníf í hendi og barn meðferðis. Óttast var að hún myndi valda barninu og sjálfri sér skaða.

Ölvuðum manni vísað úr skóla

Á lögreglustöð 2 og 3 var talsvert um innbrot og þjófnað, þá meðal annars á vinnusvæði í hverfi 221 þar sem ýmsum verkfærum var stolið.

Aðilar stóðu að þjófnaði úr fataverslun í hverfi 201 og voru fluttir á lögreglustöð en þeir eru grunaðir um ólöglega dvöl á landinu.

Einnig var ölvuðum manni vísað út úr skóla í hverfi 111.

Mál afgreitt með forráðamanni

Lögreglan á lögreglustöð 4 sinnti útkalli eftir að flutningabifreið valt í hverfi 162. Einn var fluttur á bráðamóttöku.

Lögregla kærði ökumann fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar í hverfi 112 en málið var afgreitt á vettvangi.

Þá sinnti lögregla á lögreglustöð 4 einnig þjófnaðarmáli. Tilkynnt var um þjófnað úr matvöruverslun í hverfi 110 sem var afgreitt af hálfu lögreglu á vettvangi með forráðamanni þjófsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert