Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að fasteignaskattar verði lækkaðir árið 2025, bæði á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði, til að bregðast við hækkun fasteignamats.
Lækkunin myndi miða að því að tekjur borgarinnar af fasteignagjöldum héldust óbreyttar milli áranna 2024 og 2025 að viðbættum verðbótum.
Fasteignaskattar af íbúðarhúsnæði færu því úr 0,18% niður í 0,158%, en fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði færu úr 1,6% niður í 1,52%.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, lagði fram tillöguna á fundi borgarstjórnar í dag þar sem fóru fram oddvitaumræður um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2025 og fjármálastefnu Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið 2025 til 2029.
Hildur rakti í ræðu sinni hækkanir á fasteignamati frá árinu 2022 til ársins 2025. En frá upphafi þessa kjörtímabils hefur heildarmat fasteigna hérlendis hækkað úr 10,34 milljörðum í 15,3 milljarða, eða sem nemur um tæpum 48%.
Sagði hún Reykjavíkurborg ekki hafa brugðist við hækkun fasteignamats árin 2023 og 2024 líkt og nágrannasveitarfélögin og því væri eðlilegt að stemma stigu við frekari hækkunum
„Hækkun fasteignamats fylgja óhjákvæmilega samsvarandi skattahækkanir á fólk og fyrirtæki nema álagningarhlutföllum verði breytt,“ sagði Hildur.
„Sanngjörn og hófleg skattheimta og kerfi sem styðja við atvinnurekstur, skapa borginni frekari tekjur í gegnum verðmætasköpun atvinnulífs,“ sagði hún jafnframt.
Með skattalækkuninni megi tryggja að heimilin og fyrirtækin í borginni ákveði sjálf hvernig ráðstafa skuli þeim tveimur milljörðum sem falli til vegna skattalækkunarinnar.