Starfshópur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins leggur til stofnun þjóðgarðs í Dalabyggð.
Þetta kemur fram í skýrslu starfshópsíns sem Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherra skipaði til að vinna tillögur um aðgerðir sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins og stuðlað geta að því að efla samfélagið í Dalabyggð.
Starfshópurinn leggur til að ráðuneytið vinni tillögur um friðlýsingarkosti í Dalabyggð og að stofnaður verði þjóðgarður í sátt við íbúa og hagsmunaaðila. Samhliða verði unnið að uppbyggingu innviða og m.a. horft til þess að koma upp gestastofu þjóðgarðs í Ólafsdal.
„Mér finnast sömuleiðis hugmyndir hópsins um stofnun þjóðgarðs í Dalabyggð áhugaverðar og það er ánægjulegt að upplifa aukna jákvæðni íbúa og hagsmunaaðila víða um land til hugmynda um þjóðgarða og ég fagna frumkvæði heimafólks í þessum málum,“ er haft eftir Guðlaugi Þór á vef Stjórnarráðsins.
Hópurinn segir það vera forgangsmál að tryggja flutningsgetu á raforku til Dalabyggðar. Að mati hópsins liggur beinast við að það verði gert með nýjum jarðstreng frá Stykkishólmi að Glerárskógum, Búðardal.
Þá leggur starfshópurinn til aðgerðir til að styðja við græna atvinnuuppbyggingu, að stutt verði jarðhitaleit, að skoðaðir verði möguleikar á orkuöflun og að stutt verði við nýsköpun og frumkvöðlastarf á svæðinu.
Starfshópurinn var skipaður þeim Sigurði Rúnari Friðjónssyni, sem var formaður hópsins, Höllu Steinólfsdóttur og Birni Bjarka Þorsteinssyni. Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, var starfsmaður hópsins.