Musk við kosningavöku Trumps

Donald Trump og Elon Musk eru sagðir munu eyða kosninganóttinni …
Donald Trump og Elon Musk eru sagðir munu eyða kosninganóttinni saman. AFP/Jim Watson

Auðjöfurinn Elon Musk ætlar að verja kvöldinu á kosningavöku Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í Mar-a-Lago í Flórída í kvöld. Musk hefur styrkt Trump um að minnsta kosti 119 milljónir bandaríkjadala í kosningabaráttunni

New York Times greinir frá því að Musk ætli að vera á viðburðum á Palm Beach í kvöld. Hann muni svo fylgjast með úrslitum kosninganna ásamt Trump og fámennum hópi.

Trump stendur fyrir nokkrum veislum í kvöld. Til dæmis stendur hann fyrir fámennu kvöldverðarboði í Mar-a-Lago fyrir þá sem hafa látið umtalsvert fé renna í kosningasjóð hans. 

Trump og Musk eru sagðir tala saman oft í viku.
Trump og Musk eru sagðir tala saman oft í viku. AFP/Jim Watson

Dyggur stuðningsmaður með djúpa vasa

Mun forsetinn fyrrverandi svo ávarpa stærri hóp í félagsheimili í Palm Beach seinna um kvöldið.

Musk er dyggur stuðningsmaður Trumps og hefur staðið fyrir viðburðum fyrir hönd Trumps í sveifluríkinu Pennsylvaníu. Þeir Trump eru sagðir tala saman oft í viku. 

Þess má einnig geta að Musk á samfélagsmiðilinn X. Hafa demókratar áhyggjur af því að Musk kunni að nota eigin miðil til að styðja Trump í kosningabaráttunni og ýta undir dreifingu falsfrétta og rangra upplýsinga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert