Héraðsdómur Reykjavíkur hefur frestað ákvörðun um refsingu ökumanns sem var ákærður fyrir að hafa orðið valdur að banaslysi í umferðinni fyrir tveimur árum.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákærði manninn í ágúst fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa, laugardaginn 10. desember 2022, ekið bifreið án nægilegrar varúðar og aðgæslu norður Höfðabakka í Reykjavík, við Árbæjarsafnið, og fyrir að hafa notað farsíma án handfrjáls búnaðar við aksturinn.
Bifreiðin hafnaði á vegfaranda sem kraup á veginum, með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut áverka sem leiddu til þess að hann lést á bráðamóttöku Landspítalans skömmu síðar.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll í gær, að málið hafi verið þingfest 30. september síðastliðinn og neitaði maðurinn sök. Þá segir að ítarleg greinargerð mannsins hafi verið lögð fram í þinghaldi 16. október. Við fyrirtöku 22. október féll ákæruvaldið frá hluta af ákæru og játaði ákærði sök samkvæmt breyttri ákæru.
„Játningin er studd sakargögnum og er sannað með henni og öðrum gögnum málsins að
ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð
til refsiákvæða í endanlegri ákæru,“ segir í dómi héraðadóms.
Þá kemur fram, að maðurinn hafi ekki áður gerst brotlegur við refsilög. Tafir urðu á meðferð málsins fyrir útgáfu ákæru og horfði það til mildunar.
Tekið er fram, að samkvæmt vottorði sálfræðings hafi maðurinn átt erfitt með andlega líðan eftir atburðinn. Það samrýmist öðrum gögnum málsins að sögn héraðsdóms og verður að
taka tillit til aðstæðna ákærða, eins og hér stendur á.
Þá segir dómurinn að atvik séu fremur sérstæð, eins og þau birtast í málsgögnum. Það er þó ekki útskýrt nánar í dómnum. Þótti því rétt að fresta ákvörðun refsingarinnar og skal refsingin falla niður að liðnum tveimur árum fráuppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð.
Manninum var gert aðgreiða samtals 1.426.964 krónur í sakarkostnað til ríkissjóðs og eru þar innifaldirtveir þriðju hlutar þóknunar skipaðs verjanda hans sem í heild nemur 1.200.000 krónum með virðisaukaskatti. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.