56 lyfjatengd andlát á síðasta ári

Ópíóðalyf­iið Oxycontin. Af 56 lyfjatengdum andlátum árið 2023 voru 34 …
Ópíóðalyf­iið Oxycontin. Af 56 lyfjatengdum andlátum árið 2023 voru 34 vegna ópíóíða-eitrana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í fyrra voru lyfjatengd andlát alls 56 hér á landi, þar af voru 15 sjálfsvíg (vísvitandi sjálfseitranir). Þetta segja tölur um lyfjatengd andlát 2023 sem hafa verið birtar á vef embættis landlæknis.

Fram kemur að miðað við stærstu flokka dánarorsaka séu lyfjatengd andlát fá hér á landi og mikilvægt sé að túlka tölur einstakra ára af varúð enda geti verið um tilviljanakennda sveiflu að ræða.

Þegar horft er til meðaltals undanfarinna ára á hverja 100 þúsund íbúa sést að það fer úr 9,0 árin 2014-2018 í 11,3 árin 2019-2023.

Fleiri andlát hjá körlum 

Þegar tölur síðasta árs eru skoðaðir eftir kyni sést að lyfjatengd andlát voru fleiri hjá körlum (35) en konum (21). Lyfjatengd andlát voru flest í aldursflokkunum 18-29 ára (15) og 30-44 (23). Af 56 lyfjatengdum andlátum árið 2023 voru 34 vegna ópíóíða-eitrana og 22 vegna eitrana af öðrum ávana- og fíkniefnum og lyfjum.

Tölur um dánarorsakir byggja á dánarvottorðum einstaklinga sem áttu lögheimili á Íslandi við andlát. Dánarmein eru skráð af dánarvottorðum í dánarmeinaskrá embættis landlæknis og kóðuð samkvæmt nýjustu útgáfu og uppfærslum alþjóðlegrar tölfræðiflokkunar sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála.

Með lyfjatengdum andlátum er átt við andlát vegna eitrana ávana- og fíkniefna sem og lyfja. Þjóðir heims hafa ekki sammælst um eina alþjóðlega tölfræðilega skilgreiningu á lyfjatengdum andlátum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka