Gera ráð fyrir 1,2 milljarða rekstrarafgangi

Skuldaviðmið sveitarfélagsins er áætlað 89% í lok árs 2025.
Skuldaviðmið sveitarfélagsins er áætlað 89% í lok árs 2025. Ljósmynd/Hafnafjarðarbær

Í nýrri fjárhagsáætlun Hafnafjarðarbæjar er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur A- og B-hluta sveitarfélagsins verði rúmlega 1,2 milljarðar árið 2025. Áætlunin var lögð fram til fyrri umræðu í dag en hún nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2026-2028. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnafjarðarbæ. 

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að afkoma A-hluta verði jákvæð um 314 milljónir króna. Þá er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri A- og B-hluta verði 5.9% af heildartekjum eða rúmlega 3.1 milljarður. Skuldaviðmið sveitarfélagsins er áætlað 89% í árslok 2025. 

Mikilvægt að lántaka sé í lágmarki

„Rekstur bæjarsjóðs Hafnafjarðar heldur áfram að styrkjast og er jákvætt að gert er ráð fyrir auknum rekstrarafgangi á næsta ári,“ er haft eftir Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnafjarðar. 

Hún segir að á tímum mikillar innviðauppbyggingar sé mikilvægt að halda lántökum í lágmarki og skuldahlutföllum hóflegum. 

„Undanfarin ár hefur rekstur sveitarfélaga liðið fyrir það að auknum þjónustukröfum hafa ekki fylgt tekjustofnar til að standa undir þeim. Mikilvægt er að brugðist verði við því af hálfu stjórnvalda en metnaður Hafnafjarðarbæjar er að veita íbúum framúrskarandi þjónustu áfram eins og hingað til.“

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnafjarðar.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnafjarðar. mbl.is/Sigurður Bogi

Setja aukið fjármagn í skipulagsmál

Fjárheimildir sveitarfélagsins til framkvæmda eru um 8.7 milljarðar króna. Í fjárhagsáætluninni er lögð áhersla á forgangsröðun í grunnþjónustu eins og skólamálum, umhverfismálum, samgöngum og fleira. Þá verður sett aukið fjármagn í skipulagsmál. 

Gert er ráð fyrir að seinni umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar fari fram 3. desember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka