Spáð er vonskuveðri á Vestfjörðum og Norðurlandi á morgun. Fyrir utan spá um mikla vindhæð kemur kröpp lægð yfir Vestfirði sem mun koma til með að slengja inn suðvestan vindröst yfir norðanverða Vestfirði og Strandir.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar.
Segir í tilkynningunni að búast megi við allt að 28-32 m/s síðdegis, ofsaveðri eða fárviðri og hviðum um og yfir 50 m/s.
Í vestanverðum Skagafirði og Eyjafirði er einnig spáð miklum, byljóttum vindi, einkum síðdegis sem spáð er að nái upp í 23-28 m/s.
Appelsínugular viðvaranir taka gildi um allt Norðurland og Vestfirði upp úr hádegi. Fólk er hvatt til þess að ganga frá lausamunum til þess að fyrirbyggja foktjón.