Stefán E. Stefánsson
„Á ég að segja þér dálítið leyndarmál? Við ætlum að taka 90 milljarða af lífeyrissjóðunum á hverju einasta, einasta, einasta ári.“
Þessum orðum fer Inga Sæland um þær aðgerðir sem hún vill grípa til í því skyni að fjármagna afnám allra skerðinga til aldraðra og öryrkja í almannatryggingakerfinu. Segir hún raunar að kostnaður við slíkar aðgerðir myndi nema um 50 milljörðum króna, þrátt fyrir fullyrðingar fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá árinu 2018 þess efnis að viðlíka aðgerðir myndu kosta um 150 milljarða.
Inga Sæland er nýjasti gestur Spursmála og situr þar fyrir svörum um stefnumál Flokks fólksins.
Segir hún lítið mál að fjármagna þessa aðgerð, jafnvel þótt hún reyndist dýrari og jafnvel þótt enn stefni í margra tuga milljarða halla á ríkissjóði á komandi ári. Segir hún tillögur flokks síns fela í sér um 200 milljarða í aukna tekjuöflun ríkisins.
Fyrrnefnd aðgerð gagnvart lífeyrissjóðunum miðar að sögn Ingu að því að skattleggja iðgjöld sem berist lífeyrissjóðunum frá atvinnurekendum og sjóðfélögum strax, í stað þess að skattlagningin eigi sér stað við útgreiðslu eins og lög gera ráð fyrir í dag.
Þá segir hún bruðlið á vettvangi ríkisins gegndarlaust, það sjáist meðal annars í endurbótum á Seðlabanka Íslands en einnig því sem hún kallar „snobbpartý“ í Hörpunni og vísar þar til leiðtogafundarins sem Katrín Jakobsdóttir stýrði þegar leiðtogafundur Evrópuráðsins var haldinn í fyrra.
Orðaskiptipn um þetta má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan.