Lögreglan á Suðurlandi vinnur enn að rannsókn banaslyssins þegar björgunarsveitarmaður á æfingu féll í Tungufljót nálægt Geysi á sunnudaginn.
„Við erum enn að taka skýrslur af þeim sem voru á staðnum. Þetta voru félagar sem þekktust vel. Eðlilega eru þeir í sárum svo við höfum gert þetta í rólegheitum og tekið skref fyrir skref varðandi rannsókn málsins,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, spurður út í rannsóknina á tildrögum slyssins.
Maðurinn sem lést hét Sigurður Kristófer McQuillan og var formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ. Hann var við æfingu í straumvatnsbjörgun ásamt tveimur félögum sínum í og við Tungufljót þegar slysið varð.