Með réttarstöðu sakbornings við rannsókn banaslyss

Lögregla rannsakar banaslys í Grindavík 10. janúar. Fleiri en einn …
Lögregla rannsakar banaslys í Grindavík 10. janúar. Fleiri en einn hefur réttarstöðu sakbornings. Samsett mynd/mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fleiri en einn hafa réttarstöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á vinnuslysi sem varð 10. janúar þegar Lúðvík Pétursson lést við störf í Grindavík.

Slysið varð þegar unnið var að því að bjarga húsi í Hópshverfi í Grindavík. Verkið var unnið af verkfræðistofunni Eflu fyrir tilstilli Náttúruhamfaratrygginga Íslands (NTÍ). Meðal annars er starfsmaður Eflu með réttarstöðu sakbornings en Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri NTÍ, vildi ekki tjá sig um það hvort einhver innan stofnunarinnar hefði réttarstöðuna.

Enginn hjá verktakafyrirtækinu sem framkvæmdi verkið hefur réttarstöðu sakbornings.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri NTÍ.
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri NTÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þeir sem komu næst þessari framkvæmd“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að „menn“ hafi stöðu sakbornings í málinu en tjáir sig ekki nákvæmlega um það hversu margir það séu.

„Það voru bara þeir sem komu næst þessari framkvæmd. Þetta er framkvæmd á vegum Náttúruhamfaratrygginga og Efla tekur við þessu verki frá ríkisstofnuninni,“ segir Úlfar.

„Það er alls óvíst hvort nokkur verði dreginn til ábyrgðar á grundvelli sakamáls,“ segir Úlfar og bætir hann því við að rannsóknin sé langt komin.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sprunga við sökkul húss

Hugmyndin með verkinu var að fylla upp í sprungu sem náði við og undir sökkul húss í Vesturhóp með það fyrir sjónum að hægt yrði að bjarga húsinu.

Í skýrslu Vinnueftirlitsins um slysið er sérstaklega gerð athugasemd við það að ekki hafi verið framkvæmt áhættumat á aðstæðum, meðal annars á jarðfræðilegum aðstæðum á því svæði þar sem jörð gaf sig þegar Lúðvík var að störfum.

Verkfræðistofan Efla tók að sér verkið að beiðni NTÍ. Í því fólst meðal annars að ráða verktaka og skipuleggja framkvæmdir. Greiðslur komu hins vegar frá NTÍ.

Efla hafði reglulegt eftirlit með framkvæmdum ásamt nokkrum öðrum sambærilegum verkum í bænum, sem fólst meðal annars í að aðlaga verklag eftir þörfum og aðstæðum á hverjum stað.

Frá björgunaraðgerðum í kjölfar slyssins.
Frá björgunaraðgerðum í kjölfar slyssins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert áhættumat og áhöld um nauðsyn verksins 

„Að áliti Vinnueftirlitsins hefði verkfræðistofan í ljósi aðkomu hennar að verkinu átt að hlutast til um gerð slíks áhættumats. Að sama skapi hefði verktakinn sem um ræddi átt að undirgangast það áhættumat eða vera sjálfur með fullnægjandi áhættumat,“ segir í skýrslunni.

Þá kemur einnig fram að ekki var notast við fallvarnarbúnað sem þó var tiltækur. Fallvarnarbúnaður var lína sem Lúðvík hefði getað verið festur við. Fram kemur í skýrslunni að sérfræðingar verkfræðistofunnar efist um að línan hefði haldið þegar sprungan féll saman, en Vinnueftirlitið telur það þó ekki útilokað að línan hefði haldið.

Þá dregur Vinnueftirlitið í efa nauðsyn þess að fara í verkið í ljósi þess hversu ótryggar aðstæður voru á svæðinu.

„Í ljósi aðstæðna í Grindavík, þar sem atburðarás í tengslum við náttúruhamfarir var enn í gangi, má velta upp hvort þetta tiltekna verk hafi verið áhættunnar virði,“ segir í lokaorðum skýrslunnar. 

Hvergi gert áhættumat í Grindavík 

Mbl.is hefur rætt við fjölda manns í tengslum við rannsóknina.

Einn viðmælenda, sem vildi ekki koma fram undir nafni en þekkir til málsatvika, bendir á það að ekkert verk í Grindavík hafi verið unnið að undangengnu áhættumati.

Menn hefðu alla jafna verið að bregðast við aðstæðum og að ganga í þau verk sem þurfti þegar óskað var eftir því. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert