Víðir Reynisson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi segir að fólk sem hafi fjármagnstekjur teljist hin breiðu bök og að skattar verði hækkaðir á það. Það eigi við um einyrkja ýmiskonar.
Þetta kemur fram í samtali við Víði í Spursmálum þar sem hann er spurður út í áform Samfylkingarinnar um aukna tekjuöflun ríkissjóðs. Leggur hann áherslu á að tekjuskattur verði ekki hækkaður en að til athugunar sé að hækka fjármagnstekjuskatt úr 22% í 25%.
Þegar Víðir er minntur á að margir einyrkjar sem haldi úti rekstri gegnum einkahlutafélög greiði fjármagnstekjur af arði sem greiddur er út úr slíkum félögum segir hann að þar sé um hin breiðu bök að ræða sem hægt sé að sækja meiri skatttekjur til.
Arður, sem ber fjármagnstekjuskatt, byggir grundvöll sinn á hagnaði viðkomandi fyrirtækja og hefur því áður en til arðgreiðslu kemur og álagningar fjármagnstekjuskatts, borið 20% skatt. Virk skattheimta af þeim fjármunum sem þar er um að ræða er því 37,6%.
Er það mjög nærri þeirri prósentu sem einstaklingar greiða í tekjuskatt í öðru þrepi, þ.e. af tekjum á bilinu 446.137 til 1.252.501 kr.
Gangi fyrirætlanir þær sem Víðir nefnir eftir mun skattbyrði einyrkja af arðgreiðslum úr félögum sínum hins vegar hækka í 40%.
Orðaskiptin um þessar hugmyndir má sjá í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rakin orð fyrir orð í textanum hér að neðan.
Þið eruð að boða stórkostlegan útgjaldapakka á komandi árum.
„Já við erum líka að boða hvernig við ætlum að fjármagna hann. Við ætlum meðal annars að fjármagna hann með aðhaldi í ríkisrekstri, við ætlum að hagræða í ríkisrekstrinum eins og við erum búin að vera að kynna. Það er fullt af möguleikum og þær snúast dálítið mikið um að taka réttar ákvarðanir.“
En þið ætlið líka að ráðast í skattahækkanir þótt það sé erfitt að tosa upp úr ykkur í hverju þær eiga að felast.
„Ja, ég bara sagt þér alveg skýrt að við ætlum ekki að hækka tekjuskatt á vinnandi einstaklinga.“
Guðmundur Ari Sigurjónsson var hérna í settinu hjá mér um daginn. Hann segir að það komi vel til greina, það sé ekki fyrsta skrefið. Hann segist hafa talað fyrir því á Seltjarnarnesi að hækka útsvarið þannig að þið talið tungum tveim í þessu.
„Það er bara, það er ágætt að Samfylkingin er breiðfylking fólks með mismunandi áherslur. En það er alveg skýrt frá forystunni, og kemur bara alveg skýrt fram í greininni sem Kristrún skrifar og er birt í Morgunblaðinu í morgun. Við ætlum ekki að hækka tekjuskatt á einstaklinga. Við erum að skoða það að hækka fjármagnstekjuskattinn úr 22% í 25%. Við erum að skoða það að horfa á mjög víðtæk auðlindagjöld, en sanngjörn á marga þætti, ekki bara veiðigjaldið. Við erum að horfa á raforkuna, við erum að horfa á orkuna yfir höfuð. Við erum að horfa á stýringu ferðamannastaða.“
Munaður að hafa fjármagnstekjur
En fjármagnstekjuskatturinn er skattur á einstaklinga.
„Ég sagði tekjuskattur. Það er munur á því hvort þú ert bara eins og stór hluti þjóðarinnar, þú bara vinnur þína vinnu, þú færð útborgað og það er borgaður tekjuskattur af þeirri vinnu. Og svo er það hópur sem hefur þann munað að eiga einhverskonar fjármagn sem það hefur tekjur af í einhverskonar eignum.“
Það eru ekki bara slíkir, ég meina, rakarinn á horninu, píparinn og smiðurinn. Allt fólkið sem er einyrkjar í rekstri, þeir munu þurfa að borga hærri skatta með þessu.
„Við teljum að þeir sem falla í þennan hóp, að borga fjármagnstekjuskatt af slíkum tekjum hafi breiðara bak en almennur launþegi sem á ekki slíka möguleika.“
Og það á við um píparann og smiðinn og?
„Já það getur vel verið að það lendi einhver svo, að það séu einhverjir með þess háttar, séu að eiga fjármagn sem þeir eru að hafa af því fjármagnstekjur og þurfa þá að greiða af því örlítið hærri skatt núna.“
Þetta eru þeir sem greiða arð út úr félögum.
Hvaðan koma tekjurnar?
„En langstærsti liðurinn í tekjum hingað til af fjármagnstekjuskatti er af arðgreiðslum og öðru slíku.“
Já, arðgreiðslurnar eru að koma út úr hlutafélögum og einkahlutafélögum hjá pípurunum, smiðunum og slíku fólki, og verktökum.
„Við höldum að það sé svigrúm fyrir þá sem eru með breiðari bökin til þess að taka aðeins meira á sig. Við verðum að auka tekjurnar að einhverju leyti á sama tíma og við ætlum að ná miklu meira inn með hagræðingu í ríkisrekstri. Og það er stóra áskorunin. Og eins og við höfum rætt hérna og hefur alveg komið fram að þá er alveg svigrúm fyrir það að það er svigrúm fyrir það með halla ríkissjóðs og fleira.“