Segja sumt starfsfólk þurfa að nýta sér matarhjálp

Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í Bretlandi mættu til landsins í gær til …
Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í Bretlandi mættu til landsins í gær til að mótmæla. Ljósmynd/Efling

Fulltrúar fleiri en 700 launþega fyrirtækisins Bakkavarar í Bretlandi flugu til landsins í gær og héldu á skrifstofu fyrirtækisins til að krefjast áheyrnar á launakröfum starfsmanna.

Þetta kemur fram á heimasíðu verkalýðsfélagsins Unite the Union og Eflingar.

Stofnendur fyrirtækisins, bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, eiga rúm 50% hlut í félaginu ásamt Sigurði Valtýssyni. Gengu bresku fulltrúarnir sömuleiðis á fund Eflingar og vonast til þess að fanga athygli íslensku þjóðarinnar á launabaráttunni.

Létu fulltrúarnir ekki við standa að fara á skrifstofu Bakkavarar heldur mótmæltu einnig fyrir framan heimili bræðranna og fyrir utan Kvikmyndaskólann sem er í eigu Ágústs.

Ákall til Bakkavararbræðra frá verkalýðshreyfingunni varpað á skjá á Granda.
Ákall til Bakkavararbræðra frá verkalýðshreyfingunni varpað á skjá á Granda.

Hagnast á illa launuðum verkamönnum

„Stærstu hluthafar Bakkavarar eru íslensku auðkýfingarnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir. Lýður Guðmundsson var áður dæmdur fyrir fjársvik gegn íslensku þjóðinni. Nú hagnast hann og bróðir hans um margar milljónir á baki illa launaðra verkamanna í Bretlandi,“ segir á vefsíðu verkalýðsfélagsins.

Verksmiðja Bakkavarar er starfrækt á breskri grundu í bænum Spalding og selur tilbúna matvöru á borð við samlokur, salöt, súpur, eftirrétti og fleira til matvöruverslana eins og Tesco, Marks og Spencer og Waitrose.

Starfsfólk Spalding-verksmiðjunnar mótmælir fátæktarlaunum.
Starfsfólk Spalding-verksmiðjunnar mótmælir fátæktarlaunum.

Dugir ekki fyrir framfærslu

Flest starfsfólk verksmiðjunnar þéni aðeins um 11,54 pund á tímann eða um 2.000 íslenskar krónur. Fara þau fram á 81 pens að jafnaði í launahækkun, sem væru um 2% af 94 milljóna punda hagnaði fyrirtækisins á síðasta ári.

Starfsfólkið hefur verið í verkfalli síðan í september og segja laun Bakkavarar ekki duga fyrir framfærslu starfsfólks. Sumt starfsfólk þurfi jafnvel að nýta sér matarhjálp til að fæða sig og fjölskyldur sínar.

Á sama tíma þéni forstjóri fyrirtækisins, Mike Edwards, 2,4 milljónir punda á ári, eða um 425 milljónir króna, meira en 100 sinnum hærri laun en starfsfólk verksmiðjunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert