Staðfesta dóm fyrir skrif upp úr minningargrein

Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs.
Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landsréttur hefur staðfest dóma Héraðsdóms Reykjaness yfir Reyni Traustasyni og útgáfufélaginu Sólartúni ehf. fyrir skrif miðilsins Mannlífs upp úr minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu.

Mannlíf birti brot úr minningargrein sem Atli Viðar Þorsteinsson hafði skrifað um bróður sinn í Morgunblaðið í október 2021 þar sem efnið var tekið orðrétt upp úr minningargreininni.

Þurfa Reynir og Sólartún ehf. að greiða Árvakri 50 þúsund krónur auk dráttarvaxta, og Atla Viðari 300 þúsund krónur auk dráttarvaxta. Árvakur hafði krafist 1,5 milljóna króna í bætur en málskostnaður fyrir Landsrétti var felldur niður.

Brutu á sæmdar- og höfundarrétti

Var það niðurstaða dómsins, sem nú hefur verið staðfestur, að Reynir og Sólartún ehf. hefðu brotið á sæmdarrétti Atla með því að birta brot úr minningargreininni í óþökk hans og brotið gegn skyldu til að nafngreina hann sem höfund verksins í fréttinni sem birtist á vefmiðlinum Mannlíf.

Taldi dómurinn aftur á móti ekki að sýnt hefði verið fram á að fréttin hefði falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart Atla.

Niðurstaða dómsins er lýtur að Árvakri hf. var að Reynir og Sólartún ehf. hefðu brotið gegn einkarétti höfundar minningargreinarinnar til eintakagerðar og til að gera verkið aðgengilegt almenningi samkvæmt höfundalögum.

Gert að birta dómsorðið í Morgunblaðinu

Þá er einnig tekið tillit til nýrra gagna í staðfestingu Landsréttar á dómnum sem renna enn frekari stoðum undir niðurstöðuna en þar á meðal er skjáskot af heimasíðu Morgunblaðsins þar sem fram kemur að endurbirting minningargreina í öðrum miðlum sé óleyfileg nema með samþykki höfunda og Morgunblaðsins.

Í öðru skjáskoti af skilmálum minningargreina kemur fram að með því að senda minningargrein í gegnum heimasíðu Morgunblaðsins sé höfundarréttur að hinu innsenda efni framseldur Árvakri hf.

Hefur Landsréttur staðfest niðurstöðu dómsins um að Árvakur hf. eigi rétt á bótum úr hendi Reynis og Sólartúns ehf. og skulu dómsorð birt í prentaðri útgáfu Morgunblaðsins.

Árvakur hf. er útgefandi Morgunblaðsins, mbl.is og K100.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert