Vonsvikin yfir verkalýðshreyfingunni

Ákall til Bakkavararbræðra frá verkalýðshreyfingunni varpað á skjá á Granda.
Ákall til Bakkavararbræðra frá verkalýðshreyfingunni varpað á skjá á Granda.

Forsvarsmenn fyrirtækisins Bakkavarar kveðast vonsviknir yfir verkfalli starfsmanna í verksmiðju fyrirtækisins í Spalding í Lincolnshire-sýslu í Bretlandi.

Fyrirtækið sendi frá sér tilkynningu í tengslum við umfjöllun um mótmæli fulltrúa bresku verkalýðshreyfingarinnar Unite the Union hér á landi. 

Verk­smiðja Bakka­var­ar sel­ur til­búna mat­vöru á borð við sam­lok­ur, salöt, súp­ur, eft­ir­rétti og fleira til mat­vöru­versl­ana eins og Tesco, Marks og Spencer og Waitrose. 

Hafa boðið 7,8% launahækkun

Stofnendur fyrirtækisins, bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, eiga rúm 50% hlut í félaginu ásamt Sigurði Valtýssyni en fulltrúarnir fóru á skrifstofu þeirra til að afhenda þeim kröfur starfsfólksins.

Segir í tilkynningu Bakkavarar að fyrirtækinu þyki miður að efnt hafi verið til verkfalls í verksmiðjunni þrátt fyrir að fyrirtækið hafi boðið 7,8% launahækkun fyrir lægst launaða starfsfólk fyrirtækisins og 6,4% til annarra starfsmanna.

Samningar hafi náðst í hinum tuttugu starfstöðvum fyrirtækisins í Bretlandi. Þeir þakka starfsfólki Spalding-verksmiðjunnar, sem ekki hefur lagt niður störf í þágu verkfallsins, fyrir dyggð þeirra við fyrirtækið.

Starfsfólk Spalding-verksmiðjunnar mótmælir fátæktarlaunum.
Starfsfólk Spalding-verksmiðjunnar mótmælir fátæktarlaunum.

Fyrirtæki sem hugsar vel um starfsfólk sitt

„Við virðum hlutverk verkalýðsfélaga gegna sem almennt vernda réttindi og hagi starfsmanna,“ er haft eftir Sadie Woodhouse, framkvæmdastjóra Spalding-verksmiðjunnar.

„Það skýtur aftur á móti skökku við að boða til verkfalls í fyrirtæki sem hugsar vel um starfsfólk sitt, skapar atvinnutækifæri fyrir nærsamfélagið, fjárfestir í þjálfun og býður fram launahækkanir til móts við verðbólguhækkanir.“

Kröfur starfsfólksins lúta að 81 pens launahækkun að jafnaði, en samkvæmt Unite the Union þénar flest starfsfólk verksmiðjunnar 1,54 pund á tímann eða um 2.000 íslenskar krónur. Launin dugi flestum ekki til framfærslu og segir að sumt starfsfólk verksmiðjunnar nýti sér matarhjálp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert