Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur ákveðið að endurskoða starfsleyfi bálstofu Kirkjugarða Reykjavíkur.
Ástæðan er sú að mengun frá starfseminni er meiri en búast mátti við þegar leyfið var gefið út í júní árið 2021, að segir í tilkynningu frá heilbrigðiseftirlitinu.
Að lokinni endurskoðun verður tillaga að endurskoðuðum starfsleyfisskilyrðum auglýst á vefsvæði Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í fjórar vikur.
Á þeim tíma getur hver sem vill sent Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur athugasemdir.
Foreldrar barna á leikskólanum Sólborg, sem staðsettur er beint á móti bálstofunni, hafa ítrekað kvartað yfir mengun frá starfseminni og sent inn tugi kvartana til heilbrigðiseftirlitsins síðustu mánuði.
Við sömu götu eru einnig Gulahlíð, frístundaheimili fyrir fötluð börn, og Brúarskóli; sérskóli fyrir börn sem eiga í alvarlegum geðrænum-, hegðunar eða félagslegum erfiðleikum.
Formaður foreldrafélags leikskólans Sólborgar, Matthías Kormáksson, birti myndband á Facebook-síðu sinni í morgun sem sýnir hvernig dökkan reyk leggur frá bálstofunni yfir svæðið í kring. Hann skrifaði einnig grein um málið sem birtist á Vísi í gær. Þar segir hann meðal annars að mengun frá starfseminni sé hættuleg heilsu barnanna sem andi reyknum ofan í lungun.