Ný könnun: Sjálfstæðisflokkur dalar enn

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. Enn sem fyrr er það Samfylkingin …
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. Enn sem fyrr er það Samfylkingin sem mælist stærst allra flokka. mbl.is/Eyþór

Í nýrri könnun sem Prósent gerir fyrir mbl.is og Morgunblaðið kemur fram að fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 12,3%.

Könnunin var gerð dagana 1.-7. nóvember. Úrtakið var 2.400 og 1.207 svöruðu og er svarhlutfallið því rétt rúmlega 50%.

Samkvæmt því heldur fylgi flokksins áfram að dala en það mældist 14,1% í könnun sem kynnt var fyrir sléttri viku síðan.

Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra á Morgunblaðinu, hefur rýnt í nýjustu tölur Prósents og í spilaranum hér að ofan má sjá stutta samantekt á því sem hann les úr þeim.

Samfylkingin enn sem fyrr stærst

Enn sem fyrr er það Samfylkingin sem mælist stærst allra flokka og reynist fylgi hennar 21,6%. Þar hefur þróunin þó öll verið á einn veg frá því að mbl.is fór að kynna mælingar Prósents í fyrri mánuði þegar það mældist 24,8%.

Næst á eftir kemur Viðreisn sem hefur verið í miklum sóknarhug síðustu viku. Þar virðist skriðurinn hafa stöðvast og mælist flokkurinn nú með 17,1%, samanborið við 18,5% í liðinni viku.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Hallur Már

Miðflokkurinn þriðji stærsti 

þriðji stærsti flokkurinn er Miðflokkur sem virðist búinn að koma sér þægilega fyrir í kringum 15%. Mælist nú með 15,1% og fer upp úr 14,4% í síðustu viku.

Svipaða sögu má segja um Flokk fólksins sem hefur staðsett sig í kringum 11% á síðustu vikum, mælist nú með 11,5%.

Hástökkvarinn í könnuninni nú er Sósíalistaflokkur Íslands. Mælist hann með 6,7% fylgi og í fyrsta sinn í fyrrnefndum könnunum með fylgi sem skilar honum mönnum á þing. Í fyrri viku var fylgið 4%.

Sanna Magdalena Mörtudóttir er oddviti sósíalista í Reykjavík suður.
Sanna Magdalena Mörtudóttir er oddviti sósíalista í Reykjavík suður. mbl.is/Hallur Már

Framsókn klossföst í fallbaráttu

Stekkur flokkurinn yfir Framsókn sem hefur nær ekkert haggast úr 5,8%. Getur það vart talist staða sem flokkurinn sættir sig við.

Píratar koma nú fast á hæla Framsóknar, og með menn inni á þingi samkvæmt því. Fylgi Pírata skríður yfir 5% múrinn og er 5,7%.

Fylgi VG er sem fyrr botnfrosið í 2,6%. og hefur nær ekkert hnikast til á síðustu vikum.

Lýðræðisflokkurinn, er minnsti flokkurinn sem býður fram í öllum kjördæmum landsins með 1,4%.

Þessar tölur voru fyrst birtar í Spursmálum sem sjá má í streymi á mbl.is í spilaranum hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert