Óvíst um lögfestingu kílómetragjaldsins

Ekki er eining um drög að frumvarpi um kílómetragjald.
Ekki er eining um drög að frumvarpi um kílómetragjald. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki eru líkur á að frumvarp til laga um kílómetragjald á ökutæki verði samþykkt áður en Alþingi lýkur störfum fyrir komandi þingkosningar, en þinglok eru áformuð í lok næstu viku. Ástæðan er sú hversu umdeilt málið er innan þings, sem og að enginn starfandi meirihluti er á Alþingi um þessar mundir.

Þetta er mat Njáls Trausta Friðbertssonar, alþingismanns og formanns fjárlaganefndar þingsins, að loknum sameiginlegum fundi fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar þingsins sem haldinn var í gær. „Það er ekki byr með málinu og mér finnst ekki ólíklegt að því verði frestað,“ segir Njáll Trausti.

Á fundinum var m.a. fjallað um frumvarp til fjárlaga næsta árs, einnig svokallaðan „bandorm“ sem er frumvarp til breytinga á ýmsum lögum sem fjárlagafrumvarpinu tengjast.

„Það sem snýr að bandorminum eru mál sem varða persónuafslátt fólks sem býr erlendis, einnig stuðningur við Grindvíkinga og annað sem að þeim málum snýr, mál sem snúa að nýsköpunarfyrirtækjum og tollfrelsi skemmtiferðaskipa sem sigla með farþega með ströndum landsins,“ segir Njáll Trausti.

Njáll Trausti Friðbertsson.
Njáll Trausti Friðbertsson.

„Þetta var sameiginleg umræða nefndarmanna beggja nefndanna, því báðar nefndirnar vilja vera vel upplýstar um málin sem til umfjöllunar eru. Við í fjárlaganefnd bíðum eftir að efnahags- og viðskiptanefnd klári sín mál. Við viljum fara í 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið sem allra fyrst, vonandi á þriðjudag ef allt gengur upp og klára síðan þingfundi í lok næstu viku,“ segir hann en tekur fram að ekki sé enn ljóst hvort það markmið náist.

Gjald á hvern ekinn kílómetra

Í frumvarpinu um kílómetragjald er m.a. mælt fyrir um að lagt verði gjald á hvern ekinn kílómetra ökutækja, en gjaldið er breytilegt eftir þyngd þeirra. Lægsta kílómetragjaldið er 6,7 krónur. Skrá verður stöðu akstursmælis hvers gjaldskylds ökutækis með rafrænum hætti.

Samkvæmt frumvarpinu er ætlunin að lögin taki gildi 1. janúar nk., en fari svo sem formaður fjárlaganefndar spáir er ljóst að bið verður á því og lögfesting gjaldsins bíður nýs Alþingis þegar þar að kemur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert