Jens Garðar Helgason, efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, minnir á að fjöldi fólks á landsbyggðinni eigi fasteignir á höfuðborginni af ýmsum ástæðum og skattahugmyndir Samfylkingarinnar myndu koma sér illa fyrir fólk í þeirri stöðu.
„Fjöldi fólks úti á landi á íbúðir í Reykjavík. Þessar eignir ætlar Samfylkingin sérstaklega að skattleggja og þetta finnst mér vera galin skattlagning. Fullt af fólki úti á landi hefur keypt eignir á höfuðborgarsvæðinu í gegnum tíðina til að dvelja í þegar þess þarf en oft vegna þess að börn þeirra eru í námi. Einnig má nefna að verkalýðsfélög eiga íbúðir í Reykjavík, á Akureyri og út um allt land ef út í það er farið. Mér finnst algerlega út úr korti að setja auka álögur á þessar eignir,“ segir Jens Garðar í samtali við mbl.is.
Segist hann í kosningabaráttunni hafa orðið var við að eigendur smærri fyrirtækja séu orðnir þreyttir á gjöldum og þungu regluverki sem tengjast rekstri. Það sé ekki í nokkrum takti við umfang fyrirtækjanna.
„Nú boðar Samfylkingin stórfelldar skattahækkanir á eignir fólks og rekstur fólks. Ef það mun ekki duga til verður sjálfsagt farið enn dýpra í tekjuskattinn hjá hinum vinnandi manni. Ég hef hitt marga sem eru í rekstri á ferð um kjördæmið að undanförnu. Fólk sem rekur lítil fyrirtæki talar mikið um reglugerðir og kröfur frá hinu opinbera. Fjöldi vaska, klósetta á hverjum vinnustað og þess háttar í íþyngjandi skuldbindingar fyrir fyrirtæki með 3-5 starfsmenn sem dæmi. Ég hitti konu sem rekur fyrirtæki þar sem starfa þrír snyrtifræðingar og tveir hárgreiðslumeistarar. Þar eru þrettán vaskar fyrir utan vaskinn í kaffistofunni.“
Jens Garðar segir hættu á skilningsleysi hjá þeim sem aldrei hafa verið þeim megin við borðið að reka fyrirtæki.
„Ef þú hefur alltaf þegið launin frá ríkinu þá er auðvelt að setja vinnandi fólki og fólki í rekstri lög og reglur án þess að hafa nokkurn tíma þurft að takast á við það sjálfur hvaða afleiðingar það hefur eða hvað það kostar fyrirtækin. Ég held að við ættum miklu frekar að horfa til þess hvernig megi fara í raunverulegar hagræðingar í ríkisrekstrinum og hvernig megi búa til umhverfi fyrir fyrirtækin sem sé hvetjandi til að auka útflutningsverðmæti. Til þess að fólk sé tilbúið að taka áhættu, stofna fyrirtæki, skapa meira og flytja meira út.“
Hvaða dæmi er hægt að taka um raunverulega hagræðingu í ríkisrekstri?
„Í fyrsta lagi tel ég að hægt sé að nýta fjármunina betur sem settir eru í ríkisreksturinn til dæmis í stóru málaflokkunum eins og heilbrigðismálum og menntamálum. Þar eru settar mjög háar upphæðir frá almenningi. En einnig væri hægt að leggja niður ríkisstofnanir eins og fjölmiðlanefnd eða neytendastofu. Þarna eru svo sem ekki stóru upphæðirnar í ríkisrekstrinum en einhvers staðar verðum við að byrja. Auk þess setjum við 6,3 milljarða á hverju ári í að reka sjónvarpsstöð og tvær útvarpsstöðvar á vegum ríkisins. Getum við með einhverjum hætti gert það betur? Ofan á þessa 6,3 milljarða nær þessi ríkisstofnun í 2 milljarða í auglýsingtekjur og til að bæta einkaaðilum upp þá skekkju eru settar 700 milljónir til þeirra. Mér sýnist að í öllum ríkisrekstrinum megi finna hagræðingarmöguleika og hugsa hlutina upp á nýtt,“ segir Jens Garðar Helgason.