Apótekum hefur fjölgað á höfuðborgarsvæðinu í ár. Þrátt fyrir það er ekkert apótek að finna í hverfi 107, Vesturbæ Reykjavíkur, 102 Reykjavík eða á Seltjarnarnesi, póstnúmeri 170.
Um 18 þúsund manns búa í þessum þremur póstnúmerum, ríflega níu þúsund í 107, tæplega fimm þúsund manns á Seltjarnarnesi og tæplega fjögur þúsund manns í 102 Reykjavík.
Eins og kom fram í Morgunblaðinu í vikunni hefur apóteki Apótekarans á Eiðistorgi nú verið lokað. Í því húsnæði hafði verið rekið apótek í rúma fjóra áratugi.
Á kortinu hér fyrir ofan má sjá hvernig dreifing apóteka er eftir hverfum og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Athyglisvert er að ekkert apótek hefur verið í hinu eftirsótta hverfi 107 Reykjavík í nokkur ár. Vesturbæjarapótek var lengi rekið við Hofsvallagötu.