Óskar Bergsson
Hannes Þorsteinsson skrifstofustjóri Kennarasambandsins segir stöðu vinnudeilusjóðs ágæta en hann sé ekki tilbúinn að gefa upp nákvæma stöðu sjóðsins.
Spurður hvers vegna hann sé ekki tilbúinn að gefa upp upphæðina segir hann að það þjóni ekki hagsmunum Kennarasambandsins að vinnuveitendur viti hversu lengi þeir geti haldið félagsmönnum sínum á launum í verkfalli.
Þannig að þú neitar að gefa upp stöðu sjóðsins?
„Þetta eru upplýsingar sem fara ekki út frá okkur og eru trúnaðarmál gagnvart okkar viðsemjendum. Það væri óskandi að menn settust að samningaborðinu og semdu þannig að við gætum hætt að tala saman í gegnum fjölmiðla.“
Minntur á að verkföll séu í gangi og almenningur eigi rétt á að vita hver staðan sé á hverjum tíma segist Hannes sammála því og gott væri að vita hvað væri að gerast við samningaborðið.
Hins vegar segist hann aðspurður ekki vita hvað sé að gerast í samningaviðræðum, spyrja þurfi aðra en hann um það. Krafa Kennarasambandsins er að laun kennara verði sambærileg við laun háskólamenntaðra sérfræðinga á almenna markaðnum og samkomulag frá 2016 þess efnis verði efnt.
Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að frá árinu 2014 hafi verið unnin ítarleg greiningarvinna í samræmi við umrætt samkomulag. Þar kemur jafnframt fram að launahækkanir til kennara hafi verið 84% frá árinu 2014 en hækkanir á almennum markaði 50%.