Umfang rekstrarvanda Ríkisútvarpsins í ár er meira en áður hafði verið reiknað með. Því hefur þurft að grípa til frekari sparnaðarráðstafana til að bæta stöðuna og eiga þær að skila 40-60 milljónum króna.
Áður hafði verið gripið til sparnaðarráðstafana sem námu 160-200 milljónum króna síðasta vor. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar RÚV frá 25. september síðastliðnum.
Á umræddum stjórnarfundi var uppgjör fyrir ágústmánuð kynnt og var afkoman jákvæð um tæplega 100 milljónir króna.
Það er þó 30 milljónum undir áætlun sem skýrist fyrst og fremst af uppgjöri kostnaðar vegna EM í fótbolta og Ólympíuleika sem reynst hafi umfram áætlun.
Afkoma RÚV fyrstu átta mánuði ársins var 167 milljónum lakari en uppfærð áætlun gerði ráð fyrir.
Meðal þeirra sparnaðaraðgerða sem gripið hefur verið til að því er fram kemur er lækkun launakostnaðar með fækkun stöðugilda.
Starfsmannavelta hafi verið nýtt en ekki hafi verið komist hjá því að segja starfsfólki upp.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.