Stöðugur ótti einkennir lífið

Svíatlana Tsíkhanouskaja sótti þing Norðurlandaráðs í síðustu viku og lét …
Svíatlana Tsíkhanouskaja sótti þing Norðurlandaráðs í síðustu viku og lét mikið að sér kveða þar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í raun eru nú tvö lönd í Hvíta-Rússlandi, eitt sem er hernumið og annað sem berst fyrir frelsi sínu,“ segir Svíatlana Tsíkhanouskaja, leiðtogi hvítrússnesku stjórnarandstöðunnar, en hún var stödd hér á landi í síðustu viku vegna þings Norðurlandaráðs, sem haldið var í Reykjavík.

Tsíkhanouskaja er nú í útlegð í Litáen, en hún neyddist til þess að flýja land eftir forsetakosningarnar 2020 í Hvíta-Rússlandi, þar sem hún bauð sig fram gegn Alexander Lúkasjenkó, en kjörstjórn landsins lýsti hann sigurvegara, þrátt fyrir að stjórnarandstaðan teldi sig hafa sannanir fyrir því að Tsíkhanouskaja hefði hlotið ríflegan meirihluta atkvæða.

Tsíkhanouskaja segir að lífið í Hvíta-Rússlandi sé nú erfitt, þar sem öll andstaða við sitjandi stjórnvöld sé barin niður með harðri hendi. „Við erum í raun með útgáfu af Norður-Kóreu í miðri Evrópu,“ segir hún um ástandið í heimalandi sínu. Hún bendir á að samkvæmt opinberum tölum séu nú um 1.400 manns í fangelsi fyrir „pólitíska glæpi“, en að sú tala sé líklega umtalsvert hærri.

Þá séu hafðar góðar gætur á ættingjum og vinum þeirra sem sitja inni eða sem hafa flúið land undan stjórnarfarinu. „En fólkið hefur ennþá trú og heldur uppi baráttunni.“

Þegar hún er beðin að útskýra nánar hvernig lífið í einræðisríki sé segist hún skilja að það sé erfitt fyrir fólk sem býr í traustum lýðræðisríkjum að skilja hvað felist í því. „Fyrir því er einræði mögulega bara orð, en fyrir þá sem búa í slíku ríki er stöðugur ótti, og fólk á erfitt með að vita hvað er bannað og hvað ekki,“ segir Tsíkhanouskaja.

Hún nefnir sem dæmi að í Hvíta-Rússlandi sé hvítrússneska opinbert tungumál, en tali menn hana á götu úti sé hætta á að lögreglan handtaki viðkomandi. „Þá á fólk alltaf von á því að geta lent í fangelsi og margir sem taka með sér bakpoka með fötum til skiptanna þegar þeir fara út úr húsi, því þú ert alltaf í hættu,“ segir Tsíkhanouskaja.

Hún leggur jafnframt áherslu á það að forysta lýðræðisríkja verði að vera meðvituð um það fordæmi sem felist í örlögum Hvíta-Rússlands og Úkraínu, sem sýni að lýðræðið sé alls ekki gefið. „Það getur verið auðvelt að glata því sem maður hefur.“

Lúkasjenkó þegar þátttakandi

Talið berst að innrás Rússa í Úkraínu, en rússneskir hermenn fengu meðal annars að nota landsvæði Hvíta-Rússlands þegar þeir hófu fyrstu sókn sína að Kænugarði í febrúar 2022.

Þegar Tsíkhanouskaja er spurð hvort Hvít-Rússar gætu mögulega dregist frekar inn í stríðið, eða jafnvel orðið þátttakendur eins og Norður-Kóreumenn nú, segir hún að Lúkasjenkó sé þegar þátttakandi í stríðinu og hafi verið frá fyrsta degi.

Hún segir að Lúkasjenkó hafi m.a. tekið þátt í að dreifa áróðri um að Úkraína og ríki Evrópu séu óvinir Rússa og Hvít-Rússa, og í raun bundið Hvít-Rússa á klafa Rússlands. „Hann þarf að sýna Pútín hollustu í hvívetna, því að öll völd hans eru undir Pútín komin.“

Ítarlegt viðtal er við Tsikhanouskaja í laugardagsblaði Morgunblaðsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert