„Ég er bara þakklát fyrir að við höfum komist frá þessu og ég er þakklát öllum sem rétt hafa okkur hjálparhönd,“ segir séra Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavík, „hvort sem það eru vinir, kunningjar eða fólk sem opnaði heimili sín fyrir Grindvíkingum. Eins er ég þakklát ríkisstjórninni, sem keypti húsin og sá til þess að fólk gæti keypt heimili annars staðar.“
Séra Elínborg á tæpa tvo áratugi að baki sem þjónandi sóknarprestur Grindvíkinga þótt síðasta árið hafi kirkjustarf þar gengið úr skorðum. „Sóknin er enn til og ég held áfram að sinna sóknarbörnunum eins og mér er unnt.“ Hún kveðst telja komandi vetur geta orðið Grindvíkingum erfiðan. Að komast í gegnum áföll er langhlaup og tekur sinn tíma.
Sóknarpresturinn er beðinn að segja örlítið af sjálfri sér áður en við lítum yfir ársgamla atburði sem þó falla seint í gleymskunnar dá.
„Ég er fædd og uppalin á sveitabæ sem heitir Kýrholt í Skagafirði og ólst þar upp, þar hafa mínar kynslóðir búið langt aftur í tímann,“ segir séra Elínborg, sem lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þótt leiðin hafi ekki legið beint í guðfræðina að loknu stúdentsprófi.
Reynist hún vera lyfjatæknir að mennt og hafa starfað í apóteki áður en hún ákvað að láta þann gamla draum rætast að leggja stund á íslenskunám við Háskóla Íslands, þar sem hún settist á skólabekk í þessu skyni haustið 1992. Draumurinn rættist þó aldrei nema að því litla leyti að séra Elínborg lagði stund á íslenskunámið í gamla Árnagarði – þó ekki nema í tvo daga.
„Svo var það bara þannig að fyrsta daginn sem ég mætti í íslenskuna leitaði það mjög sterkt á mig að fara í guðfræði og þessi hugsun að fara í guðfræði varð mjög ágeng innra með mér,“ rifjar sóknarpresturinn upp af sínum stutta ferli sem íslenskunemi því hún venti sínu kvæði í kross eftir fyrstu vikuna í íslensku og skipti yfir í guðfræði.
„Ég var ekki beint alin upp í trúrækni, lærði bara bænirnar heima eins og gengur og gerist, farið var í messu endrum og eins en afi söng í kirkjukórnum. Ég var hins vegar alltaf mjög opin og andlega sinnuð,“ segir séra Elínborg, þar hafi fegurð skagfirskrar náttúru opnað andlegar víddir barnshugans, stúlkunnar sem síðar varð sóknarprestur þess byggðarlags sem hamfarir þrýstu fram á ystu nöf.
Kennsla í guðfræði hófst viku síðar á þeim tíma sem Elínborg hóf nám og var henni þegar hleypt í námið þrátt fyrir að skipta um námsleið á síðustu stundu. Hún efaðist hvergi.
„Ég fann það strax þegar ég var komin yfir í guðfræðina að þarna átti ég að vera og þetta voru ótrúlega skemmtileg ár,“ rifjar hún upp af sex ára námi til embættisprófs í faginu, „námið var mjög fjölbreytt og skemmtilegt og ég naut þess að vera þarna. Hebreasagan heillaði mig mikið og Gamla testamentið.“ Grískan hafi þó verið strembin.
Séra Elínborg kveðst enn fremur hafa heillast af siðfræði Nýja testamentisins, guðspjöllunum og píslargöngunni. „Drottinn, upprisan og vonin urðu mitt þema, ég skrifaði lokaritgerð mína í embættisprófinu um þjáninguna í ljósi krossins og upprisu Jesú Krists,“ segir hún, en prófinu lauk hún 1998 og vígðist til Ólafsfjarðar árið 2001.
Starfaði séra Elínborg þar sem afleysingaprestur í fjögur ár áður en hún hélt suður á ný og fékk embætti sitt í Grindavík árið 2006. „Þannig að ég er búin að vera þar í átján ár núna í haust,“ segir hún.
Kirkjustarf í Grindavík kveður hún öflugt, enda sé í Grindavík mjög kröftugt samfélag. „Grindvíkingar sáu vel um kirkjuna sína, ef eitthvað þurfti að gera var mjög auðvelt að fá peninga í það,“ heldur sóknarprestur Grindvíkinga til tæpra tveggja áratuga áfram.
Viltu segja mér örlítið frá föstudeginum 10. nóvember í fyrra, frá þínu sjónarhorni.
„Já,“ byrjar séra Elínborg og ræskir sig. „Þetta var mjög eftirminnilegur dagur. Ég gifti fyrir hádegi, lítið brúðkaup og þau voru svo að fara til Reykjavíkur og ætluðu að verja helginni þar. Eftir hádegið ætlaði ég að hitta fermingarbörnin um fimmleytið, þau áttu að fara að ganga í hús á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar, það var sá tími,“ rifjar hún upp.
Er þarna var komið sögu skóku miklar jarðskjálftahrinur bæinn og segist séra Elínborg muna til þess að hún hafi spurt börnin hvort þau þyrftu ekki bara að hætta við húsgönguna eins og staðan var orðin. Ekki vildu börnin það þó, galvösk hugðust þau ganga í hús með söfnunarbaukana.
„Svo leið hálftími og þá voru allir foreldrarnir komnir að ná í börnin og sögðu „við erum öll að fara úr bænum,“ og þarna var skjálftinn orðinn mikill og skalf undir fótunum á manni,“ segir sóknarpresturinn. Hún hafi þá farið og gengið frá í kirkjunni og svo haldið á heimili sitt, sem var rétt við hlið kirkjunnar.
„Þá voru komnir stöðugir skjálftar og það var stöðugur straumur bíla út úr bænum. Ég hugsaði nú samt með mér að ég væri nú ekki að fara neitt, þetta hlyti að enda eins og allt annað. Ég fór svo í Víðihlíð um kvöldið þar sem eldra fólkið býr og þar var þá verið að rýma og farnar að koma miklar sprungur í húsið. Þá sá maður hvað þetta var alvarlegt,“ segir hún.
Er leið á kvöldið hafi henni svo borist skilaboð í símann frá almannavarnanefnd ríkislögreglustjóra þar sem fram hafi komið að allir ættu að rýma bæinn og vera farnir klukkan þrjú um nóttina.
„Mér brá bara svolítið og þegar við fórum var bara ein fær leið út, það var Krísuvík. Þá var búið að loka Nesvegi vegna sprungu og skjálftarnir voru svo miklir á Grindavíkurvegi að þar var mjög erfitt að vera í bíl. Við vorum komin til Reykjavíkur um þrjúleytið,“ rifjar séra Elínborg upp af sér og manni sínum. Fengu þau inni í íbúð sem bróðir hennar átti.
Rifjar hún svo upp það sem hún kallar hiklaust ótrúlega tíma, þegar Grindvíkingar fengu að fara á heimili sín í fylgd björgunarsveitarfólks til að ná í eigur sínar og gátu aðeins stoppað örstutta stund.
„Það fór enginn til baka,“ segir séra Elínborg hugsi, enda bannað nánast öllum að fara í bæinn.
Nú situr þessi dagur mikið í fólki. Hefurðu orðið vör við reiði fólks í garð yfirvalda, hvað er það sem helst situr í fólki?
„Það er örugglega margt sem situr í fólki, fólk bregst misjafnlega við áföllum en eitt af eðlilegum viðbrögðum áfalla er reiði, þessi dagur setti alla tilfinningarflóruna á hvolf og breytti öllu lífi okkar. Sumir urðu reiðir, það er alveg eðlilegt og reiðin beindist þá oftast að yfirvöldum og almannavörnum,“ svarar hún.
Úrvinnsla áfalla feli meðal annars í sér að gangast við tilfinningum sínum og horfast í augu við þá breyttu stöðu sem fólk nú sé í með það að leiðarljósi að ná aftur styrk sínum, „það er okkar verkefni. Náttúruöflin lúta eigin lögmálum og við breytum þeim ekki.“
Rifjar séra Elínborg upp fyrstu messuna eftir hamfarirnar, sem haldin var á sunnudaginn var, á allraheilagramessu, en eins og fram kom í Morgunblaðinu á mánudaginn var síðasta messa fyrir hamfarir einnig á allraheilagramessu – árið áður.
„Ég sagði í þessari messu að nú værum við ekki einungis að syrgja þau ættmenni sem hafa kvatt þennan heim heldur líka að syrgja það samfélag sem við höfum misst. Hversdagurinn er gjörbreyttur og við öll að fóta okkur á nýjum stað í nýju umhverfi og samfélagi og nýjum húsakynnum. En ég held við séum að fara inn í vetur sem verður okkur býsna strembinn hvað varðar tilfinningar okkar.
Núna ári seinna þegar við erum flest búin að koma okkur fyrir þar sem við verðum alla vega um stundarsakir og börnin komin í skóla. Einmitt þá gefst meira rými fyrir huga okkar að taka við og melta þessar miklu breytingar og mikla missi og þá birtist einmanaleikinn. Þetta er saga okkar allra,“ segir séra Elínborg.
Hún segir áfallið ólýsanlegt fyrir byggðarlagið. Sjálf hafi hún lent í áföllum áður, „en þessar hamfarir eru alveg ný vídd í þá flóru“.
Aðspurð kveðst hún áfram verða sóknarprestur í Grindavík, „það er ekki búið að leggja niður eitt eða neitt, hvorki bæinn né sóknina. En ég fer vítt og breitt, ég er að skíra og sinna fólki og ég sinni þeim Grindvíkingum sem til mín leita.“
Á morgun er eitt ár liðið frá rýmingu og það verður margt um að vera í Grindavík.
„Það verður samverustund í kirkjunni þar sem meðal annars Halla Tómasdóttir forseti ávarpar okkur. Síðan munum við bjóða upp á stundir um aðventuna og jólin.“
Hvað heldurðu að sé fram undan núna, hvað verður?
„Ég trúi því að ekkert muni koma fyrir bæinn þótt haldi áfram að gjósa, ég held að hann muni ekki fara undir hraun,“ svarar prestur, „en svo verður staðan tekin aftur á næsta ári, kvikan heldur alltaf áfram að safnast undir Svartsengi svo að maður getur aldrei horft langt fram í tímann.
Ég held að í fyllingu tímans verði aftur búið í Grindavík, ég held að það verði aftur samfélag þar, það er tilfinning mín og innsæi mitt segir mér það. Miklar breytingar og mikil áföll bera líka í sér von og eitthvað nýtt. Maður þarf að hugsa það þannig. Ljósið er með okkur og skaparinn er með okkur og heldur utan um okkur,“ segir séra Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavík, að lokum.
Ítarlega er í blaði dagsins fjallað um aðdraganda 10. nóvember og atburðarásina þann dag, auk þess sem rætt er við fjölda Grindvíkinga.