„Neyðarstigi verður lýst yfir í Grindavík og bærinn verður rýmdur.“ Á þessum orðum hefst frétt sem birt var á mbl.is klukkan 23.01, fyrir einu ári, föstudaginn 10. nóvember.
Á undan höfðu gengið hamfarir sem eiga engan sinn líka í nútímasögu Íslands.
Áður en lengra er haldið, og rætt við nokkra þá sem komu við sögu, er rétt að rifja upp aðdragandann og atburðarásina þennan dag.
Landris hefst nærri Svartsengi miðvikudaginn 27. október í kjölfar mjög ákafrar jarðskjálftahrinu. Hundruð skjálfta verða á degi hverjum nærri Grindavík næstu daga.
Mánudaginn 6. nóvember greinir Morgunblaðið frá því að líkur á öflugra gosi við Svartsengi aukist, eftir því sem þrýstingur haldi áfram að byggjast upp í geymsluhólfi kvikunnar á 4-5 kílómetra dýpi.
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að kvikusöfnunin sé bæði hraðari og meiri undir Svartsengi en áður hafi verið. Talið er að svokölluð kvikusylla sem myndast hafi við Þorbjörn sé um einn metri að þykkt og um sex milljón rúmmetrar að stærð.
Víðir Reynisson sviðsstjóri almannavarna segir að í janúar 2020 hafi verið útbúnar áætlanir til að forða almenningi frá hættum. Rýmingaráætlanir hafi verið gerðar og þær uppfærðar reglulega.
„Okkar mat er að við séum ágætlega undirbúin og við verðum betur undirbúin með hverjum deginum sem líður,” segir Víðir á upplýsingafundi almannavarna síðdegis þennan dag.
Hann tekur fram að ekki verði gripið til rýmingar nema fólk verði í hættu. Verstu sviðsmyndirnar segir hann gefa til kynna að nægur tími verði til að rýma, bæði í kringum Svartsengi og í Grindavík.
Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur segir mikinn ótta sækja að bæjarbúum vegna jarðhræringanna. „Við treystum því áfram að fenginni reynslu að vísindamenn – þeir gera sitt allra besta til að búa okkur undir það sem kann að vera í vændum,” segir Fannar.
Þriðjudaginn 7. nóvember er boðað til íbúafundar í Grindavík síðdegis. Þangað mæta sérfræðingar og einnig fulltrúar björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, Grindavíkurbæjar og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
Fjölmiðlum er meinaður aðgangur og er því ekki hægt að greina frá því hvað þar fer fram.
Lögreglustjórinn Úlfar Lúðvíksson segist í samtali við mbl.is hafa persónulegar áhyggjur af öryggi gesta í Bláa lóninu. Í fréttum ríkisútvarpsins kvöldið áður hafði Úlfar sagt það óábyrgt að halda úti starfsemi á ferðamannastaðnum.
„Við erum á óvissustigi, það kæmi fyrst til rýmingar á hættustigi. Það breytir því ekki að lögreglustjórinn getur haft af þessu ákveðnar áhyggjur,“ segir hann, spurður hvort hann telji þörf á að rýma staðinn. Sjálfur kveðst hann ekki myndu fara ofan í lónið.
Miðvikudaginn 8. nóvember er haldinn upplýsingafundur í Hljómahöll í Reykjanesbæ. Fundargestir sem blaðamaður mbl.is ræðir við eru misáhyggjufullir en flestir byrjaðir að gera ráðstafanir.
Að fundinum loknum segir Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofunni, í samtali við mbl.is að þótt landrisið sé meira við Þorbjörn en áður hafi sést, þá sé langlíklegast að því ljúki án þess að til eldgoss komi.
Til tíðinda dregur strax um nóttina, aðfaranótt 9. nóvember, þegar kröftug jarðskjálftahrina hefst upp úr miðnætti. Tugir óttasleginna gesta vilja komast í burtu frá Bláa lóninu og eru leigubílstjórar sendir út til að ferja þaðan að minnsta kosti fjörutíu gesti.
Leigubílstjóri segir að gestirnir hafi verið í mikilli geðshræringu og komið hlaupandi út að leigubifreiðinni. Grjót hafi hrunið á veginn.
Stærsti skjálfti þessarar hrinu ríður yfir kl. 00.46 og mælist 5 að stærð. Voru upptök hans rétt vestur af Þorbirni.
Greint er frá því á mbl.is um nóttina að Grindvíkingar eigi margir erfitt með að festa svefn eftir að hrinan hófst. Bregða einhverjir á það ráð að keyra um bæinn og nágrenni til að finna síður fyrir skjálftunum.
Sérfræðingur Veðurstofunnar ræðir við mbl.is að morgni og segir of snemmt að segja til um hvaða þýðingu þessi aukna virkni hafi: „Sérfræðingarnir munu hafa nóg að gera þegar þeir mæta til vinnu.“ Dregið hefur verulega úr hrinunni.
Ákveðið er snemma morguns að loka Bláa lóninu í heila viku og tekið fram að meginástæður þessa séu truflun á upplifun gesta um nóttina og langvarandi aukið álag á starfsmenn.
„Í rauninni ákváðum við þetta í nótt þegar þessir hörðu skjálftar riðu yfir í þessum mikla mæli,“ segir framkvæmdastjórinn Helga Árnadóttir í samtali við mbl.is fyrir hádegi. Gestir hafi eðlilega verið uggandi en flestir þó yfirvegaðir.
„Það var ekki mikið sofið í nótt,“ segir Lilja Ósk Sigmarsdóttir, íbúi í Grindavík, sem birtir upptöku af hljóðunum sem fylgdu stórum skjálfta um nóttina. „Þetta var svona það versta. Það komu svo margir snarpir stórir skjálftar í röð.“
Þeir sem reka hótelið Northern light inn í Svartsengi feta í fótspor Bláa lónsins og ákveða að loka því tímabundið. „Við ætlum að taka okkur pásu í viku,“ segir eigandinn Friðrik Einarsson.
Greint er frá því síðdegis að litlar sprungur hafi myndast í yfirborði Grindavíkurvegar. Sprungurnar eru innan við sentimetra að breidd en sumar eldri sprungur hafa stækkað. Eru þær sagðar ekki eiga að hafa áhrif á burðargetu vegarins.
Andrea Ævarsdóttir, forstöðumaður á bókasafninu í Grindavík, segir mbl.is að hún hafi orðið vör við aukinn kvíða á meðal barnanna. Spennustigið sé hátt, börnin uppstökkari og slagsmál hafi brotist út. Yngri sonur hennar hafi áhyggjur af því að húsið þeirra gæti eyðilagst í jarðskjálfta og þau sætu uppi heimilislaus.
„Maður býr sig undir það versta og vonar það besta,“ segir Njarðvíkingurinn Stefán Sturla, en hann og eiginkona hans höfðu tekið grindvísk barnabörn sín í gistingu um miðja nótt, þar sem börnin voru orðin verulega skelkuð vegna skjálftanna.
Föstudagurinn 10. nóvember rennur upp.
Nóttin reynist hafa verið róleg á Reykjanesskaga sem og á Veðurstofunni, eins og mbl.is greinir frá kl. 06.27. Rúmlega 200 skjálftar hafa mælst frá miðnætti, allir undir tveimur að stærð.
Kl. 11.30: mbl.is er fyrst til að greina frá því að skjálftavirknin hafi færst yfir í Sundhnúkagígaröðina. Áður hafði virknin verið vestar, við fjallið Þorbjörn, og gígaröðin vart komið til tals.
Kl. 12.35: Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir útfærslu varnargarða í kringum Svartsengi munu liggja fyrir á næstu klukkustundum.
Kl. 12.45: Jarðskjálfti ríður yfir Reykjanesskagann. Hans verður vel vart á höfuðborgarsvæðinu og finnst einnig víða á Suður- og Vesturlandi. Hann reynist 4,3 að stærð.
Kl. 14.31: Víðir Reynisson segir hættumat almannavarna óbreytt. „Það streymir kvika inn með svipuðum hraða og áður og við eigum von á þessum gikkskjálftum. Þrátt fyrir að þetta sé í gangi þá erum ekki komin nein merki um að kvikan sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið,“ segir Víðir í samtali við mbl.is.
Kl. 15.00: Veðurstofan tilkynnir að ekki sé hægt að útiloka að skjálftavirknin við Sundhnúkagíga stafi af kviku á talsverðu dýpi. „Stóru skjálftarnir eru að öllum líkindum brotaskjálftar en svo er önnur virkni þarna sem við erum að skoða. Hvort virknin sé að færast eða kerfið að breytast,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofunni, í samtali við mbl.is.
Kl. 15.23: Annar stór skjálfti skekur suðvesturhorn landsins, með upptök í Sýlingarfelli. Hann er einnig talinn hafa verið af stærðinni 4,3.
Kl. 15.31: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ríkisstjórnina vera að bregðast við eins skjótt og unnt er hvað varðar útfærslu varnargarða í Svartsengi, þar sem mögulegt er að eldgos brjótist út.
Kl. 16.51: Snarpur skjálfti ríður yfir suðvesturhorn landsins og á upptök í Stóra-Skógfelli að sunnanverðu. Annar ríður yfir skömmu síðar, eða kl. 16.56. Sá síðari virðist hafa orðið norðaustur af Gríndavík og suður af Sundhnúkagígaröðinni, en skjálftavirkni dagsins hefur nær einangrast við hana.
Kl. 17.30: Fluglitakóði Veðurstofunnar fyrir eldstöðvakerfið yst á Reykjanesskaga er færður upp í appelsínugult. „Eldstöðin sýnir aukna virkni og vaxandi líkur á eldgosi,“ merkir liturinn.
Kl. 17.40: Hættustigi er lýst yfir af hálfu ríkislögreglustjóra, vegna ákafrar jarðskjálftahrinu við Sundhnúkagíga sem leitt geti til eldgoss. „Hins vegar eru engin merki enn um að kvikan sé að leita á yfirborðið,“ segir í tilkynningu.
Kl. 18.12: Kvika gæti leitað sér leiðar upp á yfirborðið við Sundhnúkagíga á næstu klukkustundum, segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur við mbl.is.
Kl. 18.20: Víðir Reynisson, sviðsstjóri hjá almannavörnum, ræðir við mbl.is um hættustigið: „Við ætlum ekki í neinar rýmingar og eldgos virðist ekki vera yfirvofandi á næstunni, en þetta eru vísbendingar sem við þurftum til þess að hækka viðbúnaðinn okkar.“
Kl. 18.31: Grindavíkurvegi er lokað eftir að hann fór í sundur í stærstu skjálftunum síðdegis. Myndskeið af sprungunni vekur mikla athygli.
Kl. 19.03: Enn leikur allt á reiðiskjálfi í bæjarfélaginu og annað myndskeið af hræringunum fer sömuleiðis á flug.
Kl. 19.12: Lögreglan á Suðurnesjum virkjar viðbragðsáætlun sína. Sömuleiðis er aðgerðastjórn virkjuð í Reykjanesbæ og vettvangsstjórn í Grindavík.
Kl. 19.14: Hátt í tuttugu skjálftar af stærð 4 eða meira hafa riðið yfir á undangenginni klukkustund.
Kl. 19.16: Vinna er hafin við að reisa varnargarða í kringum virkjunina í Svartsengi. Enn stendur þó óklárað frumvarp þess efnis.
Kl. 19.33: Skjálftavirknin við Sundhnúkagíga einskorðast við svæði um þrjá kílómetra norðaustur af Grindavík. Merki þar séu sambærileg þeim sem sáust í aðdraganda fyrsta eldgossins við Fagradalsfjall árið 2021. Talið er líklegast að það líði nokkrir dagar, frekar en klukkustundir, þar til kvika geti náð upp á yfirborð.
Kl. 19.35: „Við erum búin að pakka niður í tösku og erum bara að fara,“ segir Björn Steinar Brynjólfsson, íbúi í Grindavík. Fjölskylda hans er ein margra sem hafa ákveðið að yfirgefa bæinn vegna skjálftanna. Segir hann fjölskylduna ekki lengur telja sig örugga þar.
Kl. 19.51: „Ég held að það sé enginn hérna sem ekki er hræddur núna,“ segir Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar í Grindavík, í samtali við mbl.is um ástandið í bænum. Hann segir jörð skjálfa nánast stöðugt í Grindavík og sjálfur hafi hann ekki upplifað neitt viðlíka á ævinni.
Kl. 20.04: Almannavarnir opinbera nýtt hraunflæðilíkan sem bendir til þess að hraun muni ekki renna í átt að Grindavík, verði eldgos þar sem það er talið líklegast.
Kl. 20.05: Vinna er hafin við Grindavíkurveg eftir að vegurinn fór í sundur á kafla. Vegagerðin stendur einnig í ströngu við að hálkuverja Nesveg og Suðurstrandarveg, hinar tvær leiðirnar út úr Grindavík.
Kl. 20.08: Greint er frá því að fjöldahjálparstöðvar verði opnaðar innan klukkustundar í Grindavík, á Selfossi, í Reykjanesbæ og í Kópavogi.
Kl. 20.13: Varðskipinu Þór er stefnt til Grindavíkur í öryggisskyni. Skipið siglir frá Reykjavík og er væntanlegt til Grindavíkur um nóttina.
Kl. 20.24: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir hug landsmanna hjá Grindvíkingum og öðrum þeim sem næst eru upptökum jarðskjálftanna. „Þetta er ótrúlega óþægileg og óhugnanleg staða fyrir íbúa á Suðurnesjum, sérstaklega í Grindavík,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.
Kl. 20.35: „Fólk er farið að tínast sumt úr bænum,“ segir Fannar Jónasson bæjarstjóri. „Fólk vill komast út úr þessu skjálftaumhverfi, en sérstaklega núna þegar það er meiri kraftur í þeim.“ Hann segir yfirvöld ekki hafa rýmingu bæjarins í huga.
Kl. 20.49: Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands segist hugsa hlýtt til allra íbúa í Grindavík og þeirra sem nú sinna almannavörnum og hjálp í viðlögum. „Við stjórnum ekki náttúrunni en þegar vanda og vá ber að höndum stöndum við Íslendingar saman. Höldum ró okkar og hjálpumst að.“
Kl. 20.55: Mjög skýr merki koma fram á mælum Veðurstofu um að kvikugangur sé að myndast til yfirborðs. Áfram eru taldar mestar líkur á að kvika komi upp norðan vatnaskila og því muni hraun ekki renna til Grindavíkur.
Kl. 21.03: Vörur hafa fallið úr verslunarhillum í stærstu skjálftunum í Grindavík. Verslun Nettó hefur verið rýmd og henni lokað í öryggisskyni. Myndskeið innan úr versluninni vekur athygli.
Kl. 21.11: Bráðabirgðaviðgerðum er lokið á Grindavíkurvegi. Hann verður þó ekki opnaður að sinni og er enn nokkuð laskaður þrátt fyrir viðgerðir.
Kl. 21.37: Greint er frá því að vélar í orkuverum HS Orku í Svartsengi og Reykjanesvirkjun hafi dottið út í hrinunni sem enn stendur yfir. Bilanirnar hafa ekki haft áhrif á afhendingu rafmagns.
Kl. 21.50: Grindvíkingar eru teknir að mæta í fjöldahjálparstöðina í Kópavogi. Nokkrir tugir starfsmanna Rauða krossins manna stöðvarnar, sem sagðar eru munu standa opnar svo lengi sem þörf er á. Upplýsingafulltrúi Rauða krossins segist skilja það mjög vel að fólk sé óttaslegið.
Kl. 22.19: Myndskeið úr fréttatíma ríkisútvarpsins er birt, þar sem sjá má þegar skjálfti ríður yfir í beinni útsendingu frá Grindavík þar sem Fannar bæjarstjóri er í viðtali. Fannar virðist kippa sér lítið upp við skjálftann.
Kl. 22.40: „Þetta er sérstakt. Alveg einstakt. Við höfum ekki fundið svona mikið áður,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar í samtali við mbl.is. Að sögn Kjartans hafa íbúar ekki fyrr orðið varir við svona þétta og öfluga hrinu.
Kl. 22.54: Greint er frá fyrirhugaðri rýmingu Grindavíkur á vef Vísis. Fréttin er unnin á grundvelli heimilda og almannavarnir hafa ekkert gefið út.
Kl. 22.57: Ríkisútvarpið greinir frá því á Twitter að Grindavík skuli rýmd. Enn er þó ekkert að finna um það á vef útvarpsins sjálfs. Almannavarnir hafa heldur ekki enn opinberað ákvörðun sína um rýmingu bæjarins.
Kl. 23.01: Blaðamaður mbl.is hringir í Hjördísi Guðmundsdóttur samskiptafulltrúa almannavarna til að fá það staðfest að rýma eigi Grindavík. Á sömu mínútu greinir mbl.is frá því að neyðarstigi verði lýst yfir í Grindavík og bærinn verði rýmdur.
Kl. 23.04: „Þetta er hraður og stór atburður,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofu Íslands í jarðskorpuhreyfingum. Hann segir skjálftahrinuna ekki á niðurleið. Mjög mikil skjálftavirkni sé undir Grindavík.
Kl. 23.18: Upplýsingafundur almannavarna hefst, sem átti að hefjast kl. 23. Þar tilkynnir Víðir Reynisson að rýming sé hafin í Grindavík.
Kl. 23.20: Hjúkrunarheimilið Víðihlíð í Grindavík hefur orðið fyrir miklu tjóni vegna jarðhræringa þar og hefur nú verið rýmt. Vatn hefur víða lekið út á gólf og á einum stað hefur byggingin nánast hrokkið í tvennt.
Kl. 23.22: Þorvaldur Þórðarson segir að því miður sé möguleiki á að kvikugangur sé undir Grindavík. Hann segir rétt að rýma Grindavík. „Það er ekki eftir neinu að bíða með það. Þetta er komið þarna undir og þá erum við komin með möguleika að kvika sé þarna undir. Hún getur þá komið upp þarna í bænum, en hún getur komið upp annars staðar og við skulum vona það.“
Kl. 23.41: Ljóst þykir að magn kvikunnar sé umtalsvert meira en sést hefur í stærstu innskotunum sem orðið hafa í tengslum við eldgosin í Fagradalsfjalli.
Kl. 23.48: Almannavarnir tilkynna rýmingu Grindavíkur á vef sínum.
Kl. 00.33: Vestmannaeyingar segjast boðnir og búnir að opna heimili sín fyrir Grindvíkingum. Margir Eyjamenn lýsa því yfir að þeir séu reiðubúnir að taka á móti íbúum á flótta.
Kl. 00.50: Almannavarnir gefa sér tvo til þrjá tíma til að rýma Grindavíkurbæ. Víðir ítrekar við mbl.is að um öryggisráðstöfun sé að ræða og ekki neyðarrýmingu. Hann segir ástandið innan þess ramma sem gert hafði verið ráð fyrir, með tilliti til rýminga.
Kl. 00.55: Hjúkrunarheimilið Víðihlíð hefur verið rýmt. „Það er góð sprunga gegnum húsið og vatnsleki,“ segir formaður björgunarsveitarinnar.
Kl. 01.42: „Við töldum okkur vera ýmsu vön en það sem við upplifðum núna í kvöld er bara á öðrum skala,“ segir Eiríkur Óli Dagbjartsson, útgerðarstjóri í Grindavík. Hann segist óttast þróunina. „Þetta eru svo þungir og kröftugir skjálftar. Það er varla nokkur tími á milli þeirra.“
Rýmingu Grindavíkur lauk á öðrum tímanum eftir miðnætti. Þúsundir manna höfðu yfirgefið heimili sín og ljóst varð á næstu dögum að bærinn yrði aldrei samur.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, hafði nokkrum dögum fyrir 10. nóvember varað Grindvíkinga við því að gista næturlangt í bænum. Hlaut hann víða bágt fyrir.
Þegar Þorvaldur er spurður nú, hvað leiti helst á hugann þegar 10. nóvember er nefndur, tekur hann sér góðan tíma til umhugsunar áður en hann svarar.
„Það sem kemur ef til vill helst í hugann er aðgerðaleysi. Mér fannst menn vera heldur rólegir yfir því sem gengið hafði á dagana á undan. Á þeim tíma vildi maður nú vekja athygli á þessu,“ segir Þorvaldur. „Því að jarðskjálftarnir eru alveg jafn mikil hætta og eldgosin. Það hafði kannski gleymst þarna í aðdragandanum.“
Hann segir það einnig merkilegt að hafa séð atburð af þeirri stærðargráðu sem þarna varð.
„Maður átti ekki von á því að flekahnikin myndu búa til svona stóran skjálfta. Ekki á þessum stað. En þau gerðu það samt.“
Samt sem áður hafðir þú varað fólk við því að gista í bænum.
„Já, ég – eins og ég segi, mér fannst allir vera einum of rólegir yfir öllu þessu. Einblínt einum of á hugsanlegt gos, en ekki kannski horft eins mikið á að svona tektónískur atburður gæti gerst,“ segir hann.
„Og svona ef maður horfir til baka, yfir árið í raun og veru en sérstaklega á atburðina 10. nóvember, þá er mjög mikilvægt að bæði vísindasamfélagið og viðbragðsaðilar, og eins líka íbúar svæðisins almennt, fái tækifæri til að rýna þetta sem gerðist. Skoða hvað fór vel og hvað fór ekki eins vel, og það sem hefði getað farið betur. Hvað við hefðum getað gert betur.“
Þorvaldur segir sérstaklega mikilvægt að rýna eftirlit Veðurstofunnar og hvernig viðbragðsaðilar brugðust við á þessum tíma.
„Ekki til að reyna að klína einhverju á einhvern, koma sök á einhvern, heldur til þess að læra af þessum atburðum og gera betur næst. Og það er mjög mikilvægt að við séum heiðarleg við sjálf okkur í þeim efnum.“
Það er kannski minnisstætt hjá mörgum, hvernig þú hlaust bágt fyrir þínar viðvaranir í aðdraganda þessa dags. Víðir Reynisson sagðist hiklaust myndu gista í Grindavík 9. nóvember og sagði að kvöldi 10. nóvember að „við ætlum alls ekki í rýmingar“. Það er nokkrum tímum áður en tilkynnt er um rýmingu undir miðnætti.
„Já. Þetta þarf að skoða betur. Af hverju var þessi orðræða. Ef menn horfa á framvindu mála, þá var þetta ekki rétt hjá Víði eða Veðurstofunni,“ segir Þorvaldur.
„Við þurfum virkilega að fara í saumana á þessu. Og ekki bara gera það með einhvers konar innra mati. Það verður að hafa þetta uppi á borðum og gera þetta opinberlega. Menn verða að læra af þessu. Við verðum að draga þann lærdóm af þessu að við getum þá gert enn betur næst.“
Hann segir það sama gilda um margt annað sem gert hefur verið í tengslum við umbrotin á Reykjanesskaga.
„Það er margt búið að gera mjög vel. En það er ýmislegt sem hefði mátt gera betur. Sumt kannski farið miður. Við verðum bara að rýna þetta og sjá til þess að það sem var vel gert verði vel skráð þannig að menn viti næst hvernig er best að fara að. Það sem fór ekki eins vel – við getum þá dregið af því lærdóm og gert betur næst.“
Við sáum þarna snemma kvölds, og greindum frá því þá, að fólk var tekið að flýja bæinn án þess að það hefði þó verið fyrirskipað. Einhverjir lentu jafnvel í því að Grindavíkurvegur, flóttaleiðin norður úr bænum, hreinlega rifnaði undir bílnum þeirra. Honum var í kjölfarið lokað, en bærinn enn ekki rýmdur.
„Já, einn bíll stórskemmdist af því að hann fór yfir sprungu sem opnaðist fyrir framan hann,“ rifjar Þorvaldur upp. „Það er bara mildi að það fór ekki verr.“
„Svo kemur fram í fréttum daginn eftir að Veðurstofan vissi, þegar að morgni 10. nóvember, að eitthvað óvenjulegt væri á seyði. Þetta eru þeirra orð, ekki mín,“ segir Þorvaldur.
„Af hverju er þá ekki tekin ákvörðun um að gera eitthvað? Ef þeir hefðu sagt þá til dæmis „við rýmum bæinn“ þá hefði fólk fengið nægan tíma. Það hefði getað tekið með sér gæludýrin og annað.
Og ef ekkert hefði gerst, sem raunin varð svo ekki, þá hefði fólk bara farið aftur heim til sín. Er það ekki miklu betra en að láta fólk lenda í öllum þessum hörmungum sem það lenti í þarna, og upplifa alla þessa skjálfta sem voru þarna beint undir Grindavík?“
Birtu hefði þá einnig notið við, í stað þess að þeir bæjarbúar sem eftir voru þyrftu að flýja þessar skelfilegu aðstæður í myrkri.
„Aðstæður hefðu verið allar betri. Fólk hefði haft tíma til að taka með sér mikilvæga muni,“ segir Þorvaldur.
„Þetta er það sem stendur upp úr hjá mér, fyrir utan allan lærdóminn sem við höfum getað dregið af þessu, svona vísindalega, sem er auðvitað mjög mikill.“
Sunnudaginn 19. nóvember, rúmri viku eftir að hörmungarnar dundu yfir, var boðað til samverustundar í Keflavíkurkirkju.
Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur ávarpaði þar bæjarbúa og sagðist seint myndu gleyma símhringingu sem hann fékk á föstudeginum.
Sú símhringing kom frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, eins og Fannar greindi viðstöddum frá:
„Sá sem talaði sagði: „Þú hefðir helst ekki viljað fá þetta símtal.“ Efni þess var það að það væru sterkar vísbendingar um að undir bænum okkar væri gosrás, eða kvikugangur, sem hugsanlega gæti leitt til þess í versta falli að það myndi gjósa undir bænum og allt til sjávar.“
Hann sagði kirkjugestum að tíðindin hefðu verið mun verri en það sem undirbúningur undangenginna ára hefði miðast við.
„Þegar gerðar voru hraunflæðisspár og hraunflæðislíkön, og verstu sviðsmyndir birtar og unnið með viðbragðsáætlanir og rýmingaráætlanir í samræmi við það,“ sagði Fannar.
„En framhaldið er eins og þið vitið, það þurfti að rýma bæinn okkar aðfaranótt 11. nóvember. Það vildi nú reyndar vel til í því tilfelli að margir höfðu yfirgefið bæinn fyrr um daginn, vegna þess að það voru mjög harðar jarðskjálftahrinur sem við munum öll eftir.“
Í samtali við Morgunblaðið nú segir Fannar að dagsetningin 10. nóvember muni varla líða þeim Grindvíkingum úr minni sem voru heima þann dag.
„Grindvíkingar sem voru búnir að búa þarna árum saman, og höfðu upplifað marga skjálfta, litla suma en stóra þess á milli, og tíða – þetta var öðruvísi en við höfðum nokkurn tímann upplifað. Þetta var engu líkt, og þó vorum við þá búin að finna heldur betur fyrir því.“
Nefnir Fannar að flestir bæjarbúar hafi ákveðið að yfirgefa bæinn þennan föstudag eftir að börn komu heim úr skóla eða eftir að vinnu lauk. Sumum vinnustöðum hafi jafnvel verið lokað fyrr svo fólk gæti flúið það sem þarna gekk á.
„Íbúar og atvinnurekendur – fólkið í bænum, það var búið að fá algjörlega nóg. Það var mikill straumur úr bænum síðdegis.“
Vísindamenn og viðbragðsaðilar hafi ekki gert sér almennilega grein fyrir hvers kyns var fyrr en leið svo á kvöldið.
„Eins og gjarnan áður, þegar litið er í baksýnisspegilinn, þá hefði kannski mátt grípa fyrr inn í þetta. Það voru allir af vilja gerðir að grípa í taumana þegar ástæða þótti til, en svona eftir á að hyggja er að sjá að kannski hefði mátt bregðast fyrr við.“
Hann segir að nú séu vísindamenn miklu betur í stakk búnir til að túlka mælingar þar sem hægt sé að byggja á reynslu undangengins árs.
„Þetta var lífsreynsla sem mikill lærdómur var dreginn af en sem betur fer kom það ekki að sök að bærinn hafði ekki verið rýmdur fyrr.“
Grindavíkurvegi var lokað á sjöunda tímanum um kvöldið eftir að hann tók að rifna í umbrotunum. Fannar segir að vegurinn til móts við virkjunina í Svartsengi hafi verið verulega sprunginn.
„Það var alls ekki talið ráðlegt að keyra hann. Þar var mönnuð vakt til þess að loka honum. Ég fékk raunar leyfi til að keyra þarna, því ég þurfti að fara upp í aðgerðastjórn í Reykjanesbæ. Ég var á ágætum jeppa en sprungurnar voru þannig að það þurfti að fara að öllu með gát. Maður keyrði ekki hratt á þessu svæði.“
Spurður hvort þessi lífsreynsla sitji ekki í Grindvíkingum, að hafa mátt þola þessar nær fordæmalausu jarðhræringar í eigin híbýlum, svarar Fannar játandi.
„Það að hafa búið við þessa miklu skjálfta í Grindavík – ef það kemur dynkur, það skellast hurðir, eða það er einhver hreyfing undir fótum manns, bíll sem keyrir fram hjá til dæmis – þetta situr algjörlega í fólki. Viðbrögðin eru kannski misjöfn en ég finn þetta með sjálfum mér og það eru allir sem tala um það, að það þurfi voðalega lítið til,“ segir hann.
„Þetta dofnaði nú eftir að við fluttum í bæinn, og ég tel þetta sem betur fer ekki hafa fengið mjög á mig, þannig að ég er ekki að kvarta neitt. En þetta er svona. Einhver dynkur – hann kveikir strax á einhverjum viðbrögðum. Ég hugsa að þetta lifi með fólki mjög lengi. Þetta er alveg lifandi í kollinum einhvern veginn.“
Hjördís Guðmundsdóttir er samskiptastjóri almannavarna. Hún segir að rýming Grindavíkur seint um kvöldið hafi gengið vel, ekki síst sökum þess að flestir voru þá farnir úr bænum, eða um 70-80% bæjarbúa að því er hún telur.
„Svo er eitt af þessum augnablikum sem ég mun aldrei gleyma í þessum hamförum öllum. Það er þegar björgunarsveitir og viðbragðsaðilar þurftu að yfirgefa bæinn eftir að rýmingu var lokið, því þá fengum við upplýsingar frá Veðurstofunni um að það væri best að tæma bæinn alveg,“ segir Hjördís.
Síðasti björgunarsveitarmaðurinn hafi yfirgefið Grindavík um klukkan fjögur um nóttina, en sá fór um borð í varðskipið Þór sem kallað hafði verið til og hafði lónað úti fyrir höfninni.
„Svo sáum við öll, sem horfðum á vefmyndavélarnar, hvernig bílaröðin fór í burtu. Þetta er eitt það minnisstæðasta þegar maður horfir til baka yfir síðustu ár á Reykjanesskaganum.“
Víðir Reynisson rifjar einnig upp með Morgunblaðinu þessa daga, og segir þá óraunverulega þegar hugur hans hvarflar til baka. Þrátt fyrir öll eldgos síðustu ára stendur þetta eftir sem stærsti atburðurinn.
„Þetta er svona sá atburður sem hafði mestu afleiðingarnar. Gosunum höfum við náð að verjast að mestu, með varnargörðum og slíku, þó tjón hafi auðvitað hlotist af þeim. En byggðin hefur sloppið við þau fyrir utan þrjú hús. Mesta tjónið varð í þessum tveimur atburðum, 10. nóvember og síðan í janúar þegar eystri sigdalurinn myndaðist.“
Hann segir þennan föstudag hafa hafist á fundi þar sem farið var yfir stöðuna.
„Við heyrum frá Grindvíkingum að þetta haldi bara áfram og jörðin láti þá enn finna fyrir því með þessum hætti,“ segir Víðir.
„Síðan er það þannig að ég er á fundi í hádeginu í umhverfisráðuneytinu þegar stóri skjálftinn ríður yfir. Sem allir á suðvesturhorninu fundu. Það glamraði þarna í glerjum. Við erum þarna, ég og Björn Oddsson [jarðeðlisfræðingur almannavarna], við lítum svona hvor á annan og hugsum báðir að nú sé eitthvað meira að gerast. Þarna vorum við á óvissustigi og nú vissum við að við færum á hættustig mjög fljótlega.“
Skjálftinn batt snöggan enda á fundinn.
„Þá förum við í stjórnstöðina. Við erum ekki búnir að vera lengi þar þegar við fáum símtal frá Veðurstofunni, þar sem fram kemur að þetta haldi bara áfram og verði enn kröftugra. Í kjölfarið förum við síðdegis upp á hættustigið og virkjum allt. Það eru allir komnir upp á tærnar og að reyna að skilja hvað þetta þýðir,“ segir hann.
„Síðan er það um klukkan tíu sem aftur er hringt frá Veðurstofunni: „Við erum búin að vera að greina þessi gögn. Við höldum að kvika sé farin af stað og að það sé kvikugangur sem nái undir Grindavík, og jafnvel í gegn og út í sjó.““
Víðir segir þau í stjórnstöðinni hafa spurt strax á móti: „Er hætta á að það sé að fara að gjósa? Er það það sem þið eruð að segja okkur?“
Svarið hafi komið fljótt til baka: „Já, það er þannig.“
Þá um leið hafi almannavarnir hringt í lögreglustjórann á Suðurnesjum, sem tekur ákvörðun um að Grindavík skuli rýmd. Neyðarstigi var þá einnig lýst yfir.
„Síðan tókst rýmingin vel í sjálfu sér. Stór hluti Grindvíkinga var auðvitað flúinn úr bænum. Svo tók nóttin við, og biðin eftir því að sjá hvort það myndi gjósa eða hvort þetta væri yfirstaðið, eða hvað væri eiginlega að gerast. Það ástand ríkti bara í marga sólarhringa, að við vissum ekki nákvæmlega hvort þetta væri upphafið, endirinn, eða bara hluti af einhverju sem væri komið í gang. Síðan líða dagarnir og mánuðirnir og við erum búin að fá, hvað, sex eldgos. Maður fer að missa töluna á þessu.“
Spurður út í viðvaranir Þorvaldar dagana á undan bendir Víðir á að vísindamenn séu ekki alltaf sammála.
„Stundum þarf maður að velja. Og eins og í okkar tilfelli þá er það Veðurstofan sem ber þessa lagalegu ábyrgð. Við verðum að hlusta á það. En auðvitað hlustum við líka á hina og í öllum svona krísum eins og þessari þá er mikilvægt fyrir okkur að fá öll sjónarmið, fá mismunandi raddir. Það er vont ef allir eru sammála.“
Þegar ljóst varð upp úr klukkan tíu um kvöldið að rýma þyrfti bæinn hringdi Víðir í Fannar bæjarstjóra og upplýsti hann um þær grunsemdir sem voru uppi um kvikugang undir bænum.
Athygli vakti á samkomustundinni sem áður var getið, að Fannar sagði að símtalið hefði borist upp úr hádegi. Var það misminni sökum skiljanlegs álags.
„En ég man að við ræddum saman þarna eftir hádegi og veltum því upp hvort ástandið væri orðið þannig, út af öllum skjálftunum, að við ættum að segja fólki að fara. En það var ekki fyrr en um kvöldið sem hugsanlegur kvikugangur kemur upp í umræðuna,“ segir Víðir.
Hann rifjar upp símtalið og aðdraganda þess:
„Það er fundur í gangi hjá vísindafólkinu allt kvöldið. Svo upp úr klukkan tíu kallar Björn á mig, sem er okkar tengiliður við Veðurstofuna og vísindafólkið, og segir: „Það er verið að ræða hérna hluti sem þið verðið að heyra bara núna.“ Þá er það fulltrúi Veðurstofunnar sem talar, Matthew Roberts, og hann segir bara að þau haldi að sé kominn kvikugangur undir bæinn og að þau telji skynsamlegt að rýma.“
Víðir bendir á að Sundhnúkagígaröðin hafi fyrir fram verið almannavörnum mikið áhyggjuefni.
„Þetta var sá staður sem við höfðum mestar áhyggjur af að myndi ógna Grindavík. Þessi orð, að kvikugangur gæti hafa myndast frá Sundhnúkagígum og inn í bæinn – það þurfti ekki að ræða það neitt meira. Nú förum við bara og rýmum. Allar hendur á dekk.
Þegar það ferli var komið af stað þá hringdi ég í Fannar og sagði: Nú færðu símtal sem ég veit að þú vildir ekki fá. Við erum að fara að rýma Grindavík.“
Ritstjórn mbl.is og Morgunblaðsins varð þess fyrst vör að rýma ætti bæinn þegar fréttastofa ríkisútvarpsins gaf út tíst þess efnis á Twitter. Á sama tíma var þó ekkert um rýminguna á fréttavef ríkismiðilsins. Spurður út í þessa misbresti í upplýsingagjöf viðurkennir Víðir að mistök hafi verið gerð við boðunina á fundinn.
Spurður hvort almannavarnir hafi rýnt verklag sitt þennan dag og dagana þar á undan svarar hann einnig játandi.
„Það sem við eigum að gera samkvæmt lögum er að rýna viðbrögð okkar og viðbragðsáætlanir. Við erum búin að gera það og höfum skipt þessu ári í nokkur tímabil, þar sem haldnir eru um hvert tímabil rýnifundir með viðbragðsaðilum og öðrum sem komu að ákvörðunum og útfærslum á þeim.“
Úr þessum fundum sé að verða þéttur listi verkefna, sem sum séu þegar komin til framkvæmda. Til að mynda hafi verklagi verið breytt í kringum rýmingar.
„Síðan ætlar dómsmálaráðuneytið að rýna þetta, ásamt utanaðkomandi og óháðum sérfræðingum úr nokkrum málaflokkum. Það er frábært að fá það. Eins og ég segi – við berum ábyrgð á að rýna þetta og breyta okkar innra verklagi, en svo þarf einhver annar að athuga hvernig við höfum brugðist við þeim ábendingum sem hafa komið á okkar borð í þessu,“ segir hann.
„Það er með þetta eins og annað, við eigum að vera algjörlega óhrædd við að rýna hverja einustu ákvörðun, velta henni upp, sjá hvort við getum lært af henni og gert betur næst. Menn hafa mikið talað um þetta varðandi covid-faraldurinn, ég er algjörlega sammála því að það eigi að rýna hann alveg niður. En þetta er samt miklu meira áríðandi því við erum enn í atburðarásinni. Og henni er ekkert að ljúka, segja vísindamenn.
Tekur hann fram að þótt hlé kunni að verða á umbrotum í þessu eldstöðvakerfi þá sé víst að önnur kerfi taki við, sem geti haft áhrif á höfuðborgarsvæðið og annað þéttbýli.
Við ættum því að rýna þetta mjög vel og teikna upp kerfi sem getur tekið vel á þessu. Nýta okkur vísindaþekkinguna, læra af reynslunni og gera betur. Við getum alltaf gert betur.“
Hann rifjar upp þegar hann fór til Grindavíkur 11. nóvember til að hitta þá sem þar voru.
„Þá skildi maður betur að það var nánast ólíft þarna. Eða eins og einhver orðaði það: Það var eins og jörðin væri að ráðast á okkur, aftur og aftur.“
Hann segist hafa lært það af þessari atburðarás að rýma fyrr.
„Þannig vinnum við í dag. Ef einhver merki eru um að kvikuhlaup sé að fara af stað, þá rýmum við fyrr. Það sem skilaði sér kannski ekki inn í kerfið, hvorki til okkar né í aðgerðastjórnina, var þessi djöfulgangur sem gekk á, frá hádegi á föstudeginum og fram á kvöld.“
Segir hann það fyrst hafa komið til tals á milli vísindamanna á milli klukkan sjö og átta um kvöldið, að kvikugangur kynni að vera að teygja sig til suðurs.
„Þau eru stöðugt að tala saman og velta þessu fyrir sér en sjá síðan, á þessum gps-mælum sem eru að færast í sundur, að jörðin sé að gliðna. Og skýringin geti varla verið annað en að kvika sé á ferðinni. Sem leiddi svo til þess að ákveðið var að rýma bæinn,“ segir hann.
„Við höfum oft velt þessu fyrir okkur, hugsað þetta fram og til baka. Ég segi þarna í viðtali daginn áður að ég myndi alveg gista í Grindavík, ef mér væri boðið það, og stend alveg við það. En ég held að við höfum fæst skilið raunverulega þá upplifun sem Grindvíkingar urðu fyrir á þessum sólarhringum.
Umfang þessara hamfara, og stærð þessa sigdals, er þannig að það er erfitt fyrir fólk að átta sig á þessu öðruvísi en að sjá þetta með berum augum. Þar sem áður voru sléttar götur eru komnar brekkur og þar sem voru göngustígar er jafnvel meira en metra hár stallur í jörðinni. Hreyfingarnar hafa verið ofboðslegar.“
Víðir segist í kjölfarið heyrt sögur fólks sem þarna var 10. nóvember, meðal annars þegar hópur frá almannavörnum fór til Grindavíkur skömmu síðar til að hitta þá sem stýrðu viðbragðinu.
„Að fara um bæinn með þeim, rétt eftir að þetta gerist – það er erfitt að lýsa tilfinningunum sem bærðust innra með manni. Stærðin var þannig að það var erfitt fyrir alla að meðtaka þetta.“
Spurður nánar út í þau ummæli sem hann lét falla 9. nóvember, um að hann myndi hiklaust gista í Grindavík, segir Víðir það hafa miðast við þær upplýsingar sem hann þá hafði.
„Svo getur maður skoðað það í baksýnisspeglinum seinna. Auðvitað er það vont ef fólk hefur upplifað þetta þannig að það hefur ekki viljað fara, af því að maður segir eitthvað; „Víðir segir þetta, þá er best að vera um kyrrt“ – það er auðvitað vont. Upplifunin þessa daga var miklu verri en maður getur ímyndað sér.“
Hjördís tekur í sama streng, þegar hún er spurð hvort rýma hefði átt bæinn fyrr.
„Miðað við þær upplýsingar sem við vorum með, þá gátum við ekki vitað betur. En í dag, þegar maður lítur til baka, þá hefði mögulega verið betra fyrir íbúana ef það hefði verið tekin fyrr ákvörðun um rýmingu.
Þegar maður er búinn að heyra allt sem maður hefur heyrt í dag, þá hefði örugglega mátt rýma fyrr. Við sáum það að flest fólk fór sjálft því það var einfaldlega óbærilegt að vera í bænum.“
Þegar þú talar um að heyra allt sem þú hefur heyrt í dag, vísarðu þá til upplifunar fólks?
„Já. Fólk upplifði þarna eitthvað sem við hin, sem vorum ekki þarna, getum aldrei, aldrei, ímyndað okkur hvernig var. Maður getur ekki gert sér þetta í hugarlund. Fólk náttúrlega flúði bæinn sinn vegna þess að því fannst það ekki geta verið þarna,“ segir Hjördís.
„Án þess að tala niður þær áætlanir og þann undirbúning sem var að baki, þá held ég að fæstir hefðu getað ímyndað sér það sem gerðist þennan dag í Grindavík.“