Högni heiðursborgari Stykkishólms

Með Högna Bæringssyni á myndinni eru Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri …
Með Högna Bæringssyni á myndinni eru Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri og Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, forseti bæjarstjórnar. Morgunblaðið/Gunnlaugur Auðunn Árnason

Högni Bæringsson var kjörinn heiðursborgari sveitarfélagsins Stykkishólms við hátíðlega athöfn á 80 ára afmælistónleikum kórs Stykkishólmskirkju í gær.

Högni er fæddur árið 1935 og er sonur hjónanna Bærings Elíssonar og Árþóru Friðriksdóttur. Hann bjó með foreldrum sínum fyrstu árin að Bjarnarhöfn. Árið 1951 seldu foreldrar hans jörðina og flutti fjölskyldan til Stykkishólms og hóf búskap að Borg þar sem miðstöð fjölskyldunnar var um mörg ár.

Árið 1957 gifst Högni Sigurbjörgu „Hönsu“ Jónsdóttur og eignuðust þau þrjú börn.

Lengst af starfsævi sinni var Högni bæjarverkstjóri. Hann tók við starfinu árið 1974 og sinnti því af elju í 30 ár er hann lét af störfum árið 2004. Á tímum Högna sem verkstjóra voru miklar framkvæmdir í Hólminum og vinnudagurinn oft langur.

Högni var áberandi í hestamennsku og kraftmikill í starfi Hestamannafélagsins Snæfellings og fékk gullmerki félagsins árið 2013.

Í ávarpi bæjarstjóra, Jakobs Björgvins Jakobssonar, kom fram að Högni verður fulltrúi þeirrar kynslóðar sem með eljusemi vann að uppbyggingu í Stykkishólmi á 20. öldinni og eru spor hans víða.

Hann hefur alltaf verið maður framkvæmda, gæddur bjartsýni og jákvæðni fyrir uppbyggingu í samfélaginu. Þannig eru störf hans og framganga til fyrirmyndar og til eftirbreytni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert