Hugurinn er fullur af minningum

Íslendingarnir hér með nepölsku fylgdarfólki sínu. Ferðalagið var krefjandi en …
Íslendingarnir hér með nepölsku fylgdarfólki sínu. Ferðalagið var krefjandi en fyrirhafnar virði, enda farið um óviðjafnanlegt svæði. Ljósmynd/Aðsend

„Ferðalagið var lærdómsríkt og gefandi. Hugurinn hreinsast og í göngum skilur maður margar hugsanir eftir og kemur til baka endurnýjaður og tilbúinn í ný verkefni,“ segir Ólafur Hjálmarsson verkfræðingur.

Hann var í hópi ellefu Íslendinga sem á dögunum voru í Nepal í leiðangri á vegum Ferðasetursins. Gengu þar um Himalajafjöllin; um stíga, brekkur og dali allt upp í 5.400 metra hæð. Þar nærri eru grunnbúðir Mount Everest, staðurinn þar sem þau er ætla á heimsins hæsta tind leggja á brattann.

Íslenski hópurinn flaug utan þann 13. október og var eftir þriggja leggja flug kominn til Katmandú í Nepal eftir um 30 klukkstundir. Á flugvellinum í fjallaríkinu tók á móti Íslendingum nepölsk fjölskylda sem annaðist leiðsögnina. Einnig voru til taks burðarmenn sem sáu um þyngri farangur. Og svo var lagt af stað; fyrsti áfanginn var flug frá Katmandú til bæjarins Lukla þaðan sem var gengið til Phakding, þorps sem er í liðlega 2.600 metra hæð.

Ellefu Íslendingar voru í hópnum.
Ellefu Íslendingar voru í hópnum. Ljósmynd/Aðsend

Burðardýr á göngustígum

„Um göngustíga þarna var talsverð umferð fólks og burðardýra; uxa, asna og hesta. Við þurftum að víkja fyrir dýrunum og vera þá fjallsmegin á stígnum svo dýrin ýttu okkur ekki út af fjallsbrúninni. Fjölmargar og langar hengibrýr voru á leið okkar og þurfti að sæta lagi til þess að komast yfir,“ segir Ólafur þegar hann lýsir leiðum og stöðum. Nefnir þar meðal annars hve minnisstætt hafi verið að koma til þorpsins Khunde sem er í 4.200 metra hæð. Og einmitt þar er útsýnisstaður kenndur við Edmund Hillary, þann er við annan mann kleif Mount Evererst fyrstur árið 1953.

Margt bar fyrir augu þegar stiklað var um stíga og …
Margt bar fyrir augu þegar stiklað var um stíga og steina í Himalaja. Ljósmynd/Aðsend

„Við náðum að Gokyo-vatni að kvöldi 6. göngudags. Í framhaldinu gengum við til hæðaraðlögunar á útsýnistindinn Gokyo Ri, sem er 5.350 metra hár. Þaðan er glæsilegt útsýni yfir Everest. Í Nepal er reglan annars sú að einungis þeir staðir sem fara yfir 7.000 metra heita fjöll. Annars er talað um fjallstoppa,“ tiltekur Ólafur sem lengi hefur stundað útivist og fjallgöngur. Slíkt segir hann hafa verið mikilvægt; enginn fari um þessar slóðir nema vera í góðri þjálfun. „Ferðamannatíminn í fjöllunum í Nepal er frá september til desember og aftur frá mars til maí. Yfir háveturinn og á sumrin, meðan monsúnrigningarnar ganga yfir, fer enginn hættunnar vegna hátt í fjöllin. Sömuleiðis er mikilvægt að vera vel líkamlega og andlega undirbúinn fyrir gönguferðir í Himalaja. Gistirými á leiðinni eru óupphituð og því getur hitastig á nóttunni hæglega farið niður í -5°C á nóttunni. Ráðlagt er að taka lyfið diamox til þess að halda frá sér hæðarveiki. Þá er mikilvægt að treysta fylgdarmönnunum, sjerpunum, og láta þá strax vita um breytta líðan og möguleg einkenni hæðarveiki. Þeir kunna að bregðast við, enda öllu vanir,“ segir Ólafur.

Hópurinn heimsótti lítið þorp.
Hópurinn heimsótti lítið þorp. Ljósmynd/Aðsend

Síðustu tvo göngudagana, á bakaleiðinni, var farið til bæjarins Namche Bazaar. Þaðan var svo farið með þyrlu aftur til Katmandú.

„Á leiðinni skoðuðum við klaustur, sem var mögnuð upplifun. Það er ánægjulegt að fólk sem aðhyllist mismunandi trúarbrögð í Nepal lifir í góðri sátt. Hjónabönd þvert á trúarbrögð eru án vandræða. Almennt virðist mér sem fólk í Nepal lifi í góðri sátt og samlyndi hvað við annað. Heimsókn til þessa fjarlæga lands var mikil upplifun og hugurinn er nú eftir heimkomuna fullur af myndum og frábærum minningum. Fjallaferðir gefa mér mikið,“ segir Ólafur Hjálmarsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert