Menningararfur þjóðarinnar fluttur í Eddu á morgun

Handritin verða flutt á morgun frá yfir í Eddu - …
Handritin verða flutt á morgun frá yfir í Eddu - hús íslenskunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Um það bil tuttugu handrit verða flutt á morgun frá Árnagarði yfir í Eddu - Hús íslenskunnar, þar sem þau verða til sýnis næstu mánuði. Verða handritin hluti af sýningu um heimsmynd miðaldamanna.

Opnað verður fyrir sýninguna næsta laugardag en þá er dagur íslenskrar tungu.

Guðvarður Már Gunnlaugsson, rannsóknarprófessor og sviðsstjóri menningarsviðs hjá Árnastofnun, segir að til standi að flytja öll handritin yfir í Eddu með tíð og tíma. Handritahvelfingin í Eddu sé þó ekki alveg tilbúin þannig byrjað verður á að flytja þau sem verða hluti af sýningunni.

Hann segir handritin, og þá sérstaklega miðaldahandritin, vera menningararf þjóðarinnar sem hægt væri að bera saman við kastala og slíkar byggingar í öðrum löndum.

„Þetta eru verðmæti sem við eigum úr fortíðinni,“ segir sviðsstjórinn og heldur áfram.

„Við byggðum þau ekki úr neitt sérstaklega varanlegu efni og þar af leiðandi er sú skylda á okkur að sýna þjóðinni þessi handrit og við höfum ekki verið fær um það núna lengi vegna húsnæðisskorts.“

Guðvarður Már Gunnlaugsson, rannsóknarprófessor og sviðsstjóri menningarsviðs hjá Árnastofnun.
Guðvarður Már Gunnlaugsson, rannsóknarprófessor og sviðsstjóri menningarsviðs hjá Árnastofnun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt verði flutt yfir í Eddu

Handritin voru lengi sýnd í Árnagarði á árum áður en því var hætt fyrir meira en tuttugu árum vegna stærðar húsnæðisins og hve ótryggt húsnæðið var.

Þá var sýningin færð yfir í Safnahúsið um árabil en var svo lokað vegna öryggismála.

Segir Guðvarður að þeir sem komu að sýningu handritanna vildu tryggja að öryggi væri á hreinu en vantaði þá fé til þess.

„Þegar þeirri sýningu var lokið var búið að ákveða að byggja Eddu og það átti náttúrulega allt að vera eins klárt og öruggt og hægt væri.“

Hann segir góðan sýningarsal vera í húsinu og þó að bygging þess hafi aðeins dregist er það nú loksins risið.

„Við erum öll flutt inn nema örfá sem sitja yfir handritunum í Árnagarði enn þá.“

Aðalatriðið að loftgæði haldist stöðug

Segir hann að enn sé verið að reyna að ná fullkominni stjórn á tækninni í Eddu þegar kemur að þeim loftgæðum sem handritin þurfa að vera í.

„Þetta er viðkvæmt. Það er fyrst og fremst raki og líka hiti sem þarf að hafa stjórn á.“

Þá segir hann aðalatriðið vera að loftgæði haldist stöðug. Hiti, rakastig og þar af leiðandi súrefnismagn þurfi að haldast stöðugt.

„Við viljum náttúrulega flytja handritin úr Árnagarði yfir í Eddu sem fyrst. Öll sömul. Það er eitthvað sem ég geri ráð fyrir að við gerum í vetur. Við erum að ná tökum á þessu.“

Segir hann að þar sem búið var að auglýsa opnun sýningarinnar fyrir svo löngu síðan hafi verið ákveðið að slá til og flytja þau handrit sem til þyrfti yfir í Eddu

„Svo verða þau flutt upp í sýningarsalinn næstu daga og sett í sýningarskápa, sýningin opnuð með pompi og prakt og handritin verða þar í 2-3 mánuði.“

Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók á meðal handrita

Um sýninguna sjálfa segir Guðvarður að tekið sé fyrir heimssýn miðaldamanna þar sem farið er yfir hvernig samfélagið var hvað varðar lög og refsingar, stjórnarfar og dægrastyttingu. Sýningin endi svo á ragnarökum.

Verða því fyrstu mánuðina á sýningunni handrit eins og Konungsbók, eddukvæði og Flateyjarbók svo eitthvað sé nefnt.

„Veglegasta lögbókarhandritið okkar, Skarðsbók Jónsbókar, verður líka á sýningunni til að byrja með og síðan verða þarna mörg minni handrit sem eru óþekkt en hafa samt að geyma merkilega texta,“ segir Guðvarður og nefnir handrit sem hefur að geyma sögu heilagrar Margrétar sem var verndari fæðandi kvenna. Hann bendir á að stærð handritsins bendi til þess að það hafi verið geymt í svuntuvösum ljósmæðra í forðum tíð.

„Ég held að allir verði að líta á þetta. Okkur finnst við hafa sett upp mjög góða sýningu.“

Á morgun mun vika íslenskunnar hefjast sem endar svo með degi íslenskrar tungu og má sjá dagskrána hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert