Meta niðurstöður úr fyrirvaralausri leikskólaheimsókn

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Samsett mynd

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg, segir að farið verði yfir niðurstöður úr óundirbúinni eftirlitsferð sem farin var á föstudaginn í leikskólann Lund í Reykjavík eftir ábendingar foreldra og fyrrum starfsmanna.

Helgi hefur ekki farið yfir það í hverju ábendingarnar felast en samkvæmt heimildum mbl.is snúa þær að m.a. að meintri vanrækslu.

„Við vorum að fylgja eftir ábendingum sem við fengum frá foreldrum og fyrrverandi starfsmönnum. Við munum setjast yfir niðurstöðurnar á morgun og þá viðbrögð okkar gagnvart þeirri niðurstöðu. Í framhaldinu þarf samtal að fara fram á milli okkar og leikskólastjórans,“ segir Helgi.

Ekki áður borist ábendingar 

Hann segist ekki getað sagt frá málinu að öðru leyti á þessari stundu og þá hverjar niðurstöður urðu úr eftirlitsheimsókninni.

Að sögn hans hafa ekki borist áður ábendingar um starf leikskólans sem starfræktur hefur verið í áratugi.

„Ef það koma einhver atriði fram lík þeim sem bárust þá förum við alltaf í fyrirvaralausar eftirlitsheimsóknir til að leggja mat á það hvort fótur sé fyrir athugasemdunum. Við munum fara í gegnum það,“ segir Helgi.

Að sögn hans á eftir að taka ákvörðun um það fyrir hverja niðurstöðurnar verða birtar og þá hvaða upplýsingar er hægt að gefa og hverjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert