Kvika hefur brotið sér leið upp á yfirborðið sex sinnum frá því að hamfarirnar gengu yfir Grindavík 10. nóvember í fyrra.
Gosin eru rifjuð upp í 24 síðna sérblaði sem fylgdi Morgunblaðinu í gær, af því tilefni að ár er liðið frá hamförunum sem urðu til þess að þúsundir Grindvíkinga þurftu að yfirgefa heimili sín.
Eftir tíðindalitlar vikur á Reykjanesskaga braust eldgos út við Stóra-Skógfell á Sundhnúkagígaröðinni að kvöldi mánudagsins
18. desember. Þegar landsmenn voru í óðaönn að gera allt klárt fyrir jólin hófst jarðskjálftahrina sem stóð yfir í um klukkustund áður en eldarnir kviknuðu á ellefta tímanum.
Eldgosið hófst af miklum krafti og var gossprungan margfalt stærri en þegar eldgos braust út við Litla-Hrút fyrr sama ár. Var upphaf eldgossins mun kraftmeira en í fyrri eldgosum á Reykjanesskaga.
Á fyrstu klukkustundunum stækkaði sprungan mjög hratt og var tæpa þrjá kílómetra norður af bænum.
14. janúar: Húsin brenna
Um klukkan þrjú aðfaranótt sunnudagsins 14. janúar tók skjálftavirkni að aukast mikið á Sundhnúkagígaröðinni. Á fjórða tímanum þá nótt var Grindavíkurbær rýmdur og á fimmta tímanum jókst virknin enn meira. Eldgos braust út við Hagafell þremur mínútum fyrir kl. 8 þann morguninn. Nú var virknin nær Grindavík og töldu sérfræðingar að jafnvel gæti gosið innan varnargarðanna sem reistir höfðu verið. Það raungerðist þennan dag.
Aftur var upphafið kraftmikið og teygðist hratt úr sprungunni. Hraunið náði Grindavíkurvegi fyrir hádegi og eftir hádegi var ljóst að það hafði rofið bæði heita- og kaldavatnslagnir sem liggja til Grindavíkur. Ný sprunga opnaðist við jaðar bæjarins um hádegisbil og náði hraunið þremur húsum við Efrahóp.
Þegar líða tók á mánudaginn 15. janúar dró úr virkni eldgossins. Aðfaranótt 16. janúar var eldgosinu lokið.
Eldgos braust úr snemma morguns 8. febrúar milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells. Upptök eldgossins voru á svipuðum stað og í desember. Fyrirvarinn var rétt rúmur hálftími áður en kvikan braust upp á yfirborðið.
Um fjórum klukkustundum eftir að eldgosið hófst náði hraun Grindavíkurvegi. Um hádegisbil náði hraunið Njarðvíkuræðinni, lögninni sem sá Suðurnesjum fyrir heitu vatni frá virkjuninni í Svartsengi.
Aftur dró hratt úr virkni eldgossins en síðdegis sama dag hafði hraun runnið lengst um 4,5 kílómetra frá sprungunni. Tveimur dögum frá því eldarnir kviknuðu var eldgosinu lokið.
Kvikuhlaup fór af stað um klukkan átta laugardagskvöldið 16. mars og hófst eldgos ríflega 20 mínútur yfir átta það sama kvöld. Að þessu sinni voru upptökin milli Hagafells og Stóra-Skógfells, á svipuðum stað og í febrúar.
Hraun rann í suður, í átt að Grindavík. Var upphaf eldgossins kröftugra en upphaf nokkurs annars eldgoss á Reykjanesskaganum undanfarin ár.
Fór hraun yfir Grindavíkurveg og rann einnig í átt að Suðurstrandarvegi. 18. mars var virkni eldgossins orðin nokkuð stöðug og bundin við nokkra gíga og tóku þeir að hlaðast upp. Eldgosinu lauk í byrjun maí.
Um klukkan 11 að morgni hófst kvikuhlaup á Sundhnúkagígaröðinni og um tveimur klukkustundum síðar hófst eldgos. Braust kvikan upp á yfirborðið norðaustan við Sýlingarfell, á svipuðum slóðum og eldgosið hófst í mars.
Þegar leið á daginn minnkaði virkni eldgossins og um kvöldið hafði hægst verulega á hraunrennslinu frá sprungunni. Hraun flæddi í suðurátt, en mesta virknin var norðarlega á sprungunni.
Varnargarðarnir bægðu hraunrennslinu frá Grindavíkurbæ, en hraun fór þó enn á ný yfir Grindavíkurveg. 4. júní var virknin að mestu í einum gíg. 18. júní hafði hraun runnið í átt að virkjuninni í Svartsengi og tók Slökkvilið Grindavíkur, ásamt fleiri viðbragðsaðilum, til þess ráðs að kæla hraunið til að hægja á því.
Hraunið hafði þá byrjað að flæða örlítið yfir varnargarða sem reistir voru til að verja Svartsengi. 22. júní var lýst yfir goslokum.
Skjálftavirkni fór að aukast um miðjan ágústmánuð og á tíunda tímanum að kvöldi fimmtudagsins 26. ágúst braust eldgos út að nýju á Reykjanesskaga.
Nú voru upptök eldsumbrotanna norðar, talsvert nær Reykjanesbraut en í fyrri gosum, og lengdist sprungan í norður. Samhliða eldgosinu mældust skjálftar og fundust þeir stærri í byggð á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar mesti krafturinn var í upphafi gossins mældist gossprungan sjö kílómetrar að lengd. Dagana á eftir mældust nokkrir stærri skjálftar sem einnig fundust. Reyndist eldgosið vera það stærsta á Reykjanesskaga frá því í desember.