Ógn í háloftunum en ekki hætta

Þeir sem starfa við flugöryggi bregðast nú við nýrri hættu.
Þeir sem starfa við flugöryggi bregðast nú við nýrri hættu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir sem starfa við flugöryggi í heiminum glíma nú við nýja ógn sem er tilkomin vegna stríðsátaka víða um heim. Á átakasvæðum reyna ríki að verjast loftárásum með því að brengla GPS-merki en það hefur hins vegar áhrif á flugumferð á þeim svæðum. Þar með talið farþegaflugvélar.

„Við höfum séð nýja ógn við flugöryggi og hún birtist okkur fyrst í mars árið 2023. Allveruleg aukning varð á þessum tilfellum í september 2023,“ segir Jón Hörður Jónsson, formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), þegar Morgunblaðið forvitnast um þessa ógn sem áður hefur verið fjallað um hér í blaðinu.

Öryggisnefndin stóð nýlega fyrir málþingi í Reykjavík og þar voru til að mynda flutt erindi um þessa nýju ógn og hvernig skuli bregðast við. „Þessar truflanir eru við austanvert Miðjarðarhaf, í kringum Beirút og Ísrael. Einnig eru truflanir víða í Rússlandi og yfir Svartahafi. Þetta eru átakasvæði og þessar truflanir tengjast hernaði. Þessum truflunum er ekki beint að flugvélum og markmiðið er ekki að trufla flugumferð. Ríkin sem eiga í hernaði eru að freista þess að trufla dróna og flugskeyti og vernda sig þannig fyrir slíkum árásum. En niðurstaðan er sú að þetta hefur einnig áhrif á þá flugumferð sem er á þessum svæðum þótt það sé ekki markmiðið,“ segir Jón Hörður.

GPS orðið allsráðandi

Tilfellin eru mörg og nefnir Jón sem dæmi að fulltrúi frá Qatar Airways hafi verið með erindi á málþinginu. Þar hafi komið fram að tilfellin séu fleiri en þúsund á hverjum einasta degi.

„Flugleiðsögubúnaður í nýrri flugvélum hefur tekið gífurlegum tæknibreytingum á síðustu árum. Svokölluð tregðuleiðsögutæki hafa verið ráðandi í flugheiminum í flugleiðsögu og eru enn þá í öllum flugvélum. Eldri vélar sem framleiddar voru áður en GPS-tæknin ruddi sér til rúms notast við tregðuleiðsögutækni, sem er í raun og veru hröðunarmælar á þremur ásum. Eldri vélarnar notuðu jafnframt sendi á jörðu niðri til að uppfæra þau tæki meðan á flugi stóð,“ segir Jón Hörður og útskýrir nánar.

Jón Hörður Jónsson flugstjóri og formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna …
Jón Hörður Jónsson flugstjóri og formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA). Ljósmynd/Aðsend

„Í nýjum kynslóðum flugvéla eru GPS-tækin orðin allsráðandi í flugleiðsögu. Þótt tregðuleiðsögutæki séu enn til staðar fer uppfærslan fram í gegnum GPS-tæknina meðan á flugi stendur. Þegar truflun verður í GPS-tækninni brenglast tregðuleiðsögutækin einnig. Fleira er hægt að nefna sem tengist GPS, eins og jarðvarann sem varar okkur við ef við erum of nærri landi eða fjöllum. Það byggir á GPS-merkinu og við brenglun gæti GPS sýnt vélina í rangri hæð út af brenglun í jarðvarakerfinu,“ segir Jón Hörður og hið síðarnefnda hljómar væntanlega ekki vel fyrir flughrædda en Jón bendir á að stundum séu slíkar viðvaranir of fáránlegar til að flugmenn taki mark á þeim, viðvaranir sem séu augljóslega falskar.

Til dæmis þegar kerfið gefur falska viðvörun um að stefnt sé á fjall þegar vélin er í töluvert meiri hæð en hæsti fjallstindur heims. „Þá er eina leiðin að slökkva á jarðvaranum en það skapar aftur á móti ógn þegar flugið er lækkað inn til lendingar því þá berast engar viðvaranir frá kerfinu. Enn fremur getur brenglað GPS-merki haft áhrif á árekstrarvara flugvéla.“

Gefur upp ranga staðsetningu

Í þeirri ógn sem Jón Hörður ræðir um í viðtalinu er annars vegar talað um „GPS jamming“ og hins vegar „GPS spoofing“ á ensku. Hann útskýrir muninn á þessu tvennu.

„GPS jamming lokar fyrir merkið og er ekki eins alvarlegt. Það hefur verið við lýði lengi og þekkt dæmi um GPS jamming er þegar atvinnubílstjórar lokuðu á GPS-merki til að vinnuveitendur gætu ekki fylgst með ferðum þeirra. GPS-tæki ná þá ekki merkinu. Það hefur ekki svo mikil áhrif í flugi. Þegar GPS nær ekki merkinu tekur annar búnaður í flugvélinni við í staðinn,“ segir Jón en hin útgáfan af trufluninni í GSP-kerfinu er erfiðari viðfangs.

„GPS spoofing brenglar hins vegar GPS-merkið og breytir því. Fyrstu dæmin um slíkt voru á síðasta ári. Þegar merkið er brenglað gefur það rangar vísbendingar um staðsetningu flugvélarinnar.“

Verra í nýjum flugvélum

Ætti almenningur að vera áhyggjufullur?

„Nei, þetta er ógn en ekki hætta. Ógnin krefst þess samt sem áður að við séum tilbúin að bregðast við henni. Það felst í nýrri nálgun og þjálfun allra þeirra sem koma að þessu. Dæmi eru um það í Evrópu að vélar hafi misst alla flugleiðsögu og þurft að reiða sig á stefnu gefna upp af flugumferðarstjóra til að komast á leiðarenda. Flugumferðarstjóri fylgir þá fluginu eftir á ratsjá og gefur leiðbeiningar. Ógnin er sem sagt til staðar og varanleg lausn felst í endurhönnun á bæði hugbúnaði og vélbúnaði flugvélanna til þess að GPS-tæki vélarinnar taki ekki við brengluðu merki,“ segir Jón Hörður en tekur fram að þróun nýrrar tækni geti tekið tíma.

„Framtíðin mun væntanlega bera þetta í skauti sér en allar svona breytingar taka tíma. Þetta mun taka einhver ár. Við höfum náð gífurlegum árangri í flugöryggi í heiminum á síðustu árum og áratugum. Okkur hefur tekist að komast yfir ýmsar ógnir sem hafa steðjað að en við sjáum nýjar ógnir sem þarf að bregðast við. Það sem er svolítið sláandi er að viðkvæmustu flugvélarnar fyrir þessari ógn eru þær nýjustu og tæknivæddustu vegna þess að lögð hefur verið svo mikil áhersla á GPS-tæknina. Það sem við getum gert í dag er að þjálfa áhafnir og þá sem koma að flugrekstri til að bregðast við þessu ásamt góðri greiningu á þessum svæðum sem um ræðir.“

Viðtalið við Jón Hörð birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 17. október. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert