„Það var ekki mikið verið að gelta“

Framkvæmdastjórinn segir alla hundanna hafa hagað sér vel.
Framkvæmdastjórinn segir alla hundanna hafa hagað sér vel. mbl.is/Ólafur Árdal

„Við höfum aldrei gert þetta áður en okkur hefur dreymt um að gera þetta lengi,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís, en þar var hundabíó fyrr í dag.

Bauðst þar eigendum hunda að bjóða þeim ferfættu með sér ókeypis í bíó á myndina Hundur fyrir rétti (Dog on Trial).

Líkt og nafnið gefur til kynna fjallar myndin um réttarhöld yfir hundi og er byggð á sönnum atburðum

Þéttsetinn salur og góð stemming.
Þéttsetinn salur og góð stemming. mbl.is/Ólafur Árdal

Hundarnir tóku undir

„Þetta fjallar um lögfræðing sem er orðin mjög þreytt á störfum sínum og tekur alltaf að sér vonlaus mál. Svo kemur til hennar maður sem á hund sem er búinn að bíta þrisvar sinnum og á að svæfa hundinn,“ segir Hrund.

Lögfræðingnum tekst þá með klókindum að fá í gegn að réttarhöld verði haldin og segir framkvæmdastjórinn myndina vera fyndna en einnig heimspekilega þar sem hún fjallar um eðli hunda og samband manna og dýra.

„Ég get svarið að það voru atriði í myndinni þar sem hundarnir tóku bara undir. Hundurinn söng og spangólaði og að minnsta kosti tveir hundar tóku undir með því atriði.

Þetta var mjög skemmtileg sýning með öllum hundunum,“ segir Hrund.

mbl.is/Ólafur Árdal

Frábær mynd fyrir alla hundaeigendur

Aðspurð segir hún mætinguna hafa verið góða.

„Ég myndi segja að það hafi verið svona næstum því fullur salur og það var mjög góð stemming á myndinni. Það var ekki mikið verið að gelta. Það var meira verið að fylgjast með myndinni og taka undir með aðalsöguhetjunni sem er þarna fyrir rétti að berjast fyrir lífi sínu. Mjög dramatískt.“

Þá hefur þetta lengi verið draumur að halda svona hundabíó en rétta myndin þurfti þó að verða fyrir valinu.

„Þessi mynd var svo æðisleg að ég hugsaði með mér að nú verðum við að hafa hundabíó.

Af því að þetta er líka svo frábær mynd fyrir alla hundaeigendur og bara fólk sem að tengir við dýr. Hún er mjög skemmtileg og vekur mann til mikillar umhugsunar um samband okkar við dýrin.“

mbl.is/Ólafur Árdal

Mögulega kisubíó í framtíðinni

Stendur til að gera eitthvað svona aftur í framtíðinni?

„Ég ætla rétt að vona það að við getum haldið fleiri hundabíó í framtíðinni og svo kemur kannski að því að við þurfum bara að halda kisubíó og hver veit. Við erum opin fyrir öllu skemmtilegu hérna í Bíó Paradís.“

Það hefur ekki allt verið morandi í hárum í salnum?

„Ég held að salurinn sé alveg í ágætu standi. Ég held að það þurfi ekkert að spúla hann.“

Þá segir hún alla hundana hafa hagað sér mjög vel.

„[...] en ég sé að það er svolítið búið að míga hérna fyrir utan bíóið. Fyrir utan, sem betur fer. Þeir eru búnir að merkja sér Bíó Paradís núna.“

mbl.is/Ólafur Árdal
mbl.is/Ólafur Árdal
mbl.is/Ólafur Árdal
Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís.
Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert