Dagurinn og kvöldið 10. nóvember rifjast auðveldlega upp fyrir Eiríki Óla Dagbjartssyni, útgerðarmanni hjá Þorbirni í Grindavík, er blaðamaður ræðir aftur við hann tæplega ári síðar.
Eyþór Árnason ljósmyndari Morgunblaðsins var á ferðinni í Grindavík þetta kvöld og hafði litið inn til Eiríks og fjölskyldu þegar þau voru í þann mund að pakka til þess að fara til dóttur sinnar á Selfossi yfir helgina. Þá voru lætin í jarðskjálftunum orðin of mikil fyrir þau. Blaðamaður hringdi stuttu seinna í hann og ræddi við hann um brottförina.
„Við töldum okkur vera ýmsu vön en það sem við upplifðum núna í kvöld er bara á öðrum skala. Þetta eru svo þungir og kröftugir skjálftar. Það er varla nokkur tími á milli þeirra,“ sagði Eiríkur þetta kvöld við blaðamann.
Hvað tók við eftir að við spjölluðum síðast?
„Ja, það tóku við þrír dásamlegir dagar hjá yngstu dóttur okkar og fjölskyldu hennar á Selfossi. Svo fengum við lánað veiðihús hjá kunningjum okkar í einhverjar þrjár, fjórar vikur. Svo var vetur konungur farinn að minna svolítið óþægilega á sig,“ segir Eiríkur. Hann og eiginkona hans voru þá bæði að vinna á höfuðborgarsvæðinu og fengu íbúð leigða á Kársnesi.
„Við vorum þar svona meira og minna þangað til 1. júlí á þessu ári og þá fluttum við aftur heim til Grindavíkur og höfum verið þar síðan,“ segir Eiríkur.
Spurður að því hvernig hann líti til baka á 10. nóvember í fyrra segir Eiríkur að þetta hafi verið óþægilegur dagur.
„Það voru bara stöðugir jarðskjálftar,“ rifjar hann upp. „Alveg stöðugur titringur, en þó ekki þannig að maður væri eitthvað skíthræddur, en mér er ekkert vel við jarðskjálfta. Við vorum bara tveir eftir í vinnunni, niðri í Þorbirni, ég og kollegi minn, og við vorum svona annað slagið að bera saman bækur okkar eftir því sem leið á þennan föstudag. Við vorum nú svona sammála um að þetta væri nú að verða helvíti kröftugt.
Svo hringdi konan mín og spurði hvort ég gæti ekki farið að hætta í vinnunni. Það var örugglega rétt komið fram yfir kaffi. Hún sagði að við þyrftum að bruna inn í Costco og kaupa vinninga. Hún var að fara að halda jólabingó hjá kvenfélaginu, hún er formaður kvenfélagsins. Svoleiðis að ég dreif mig bara heim og við brunuðum inn eftir.
Þegar við vorum búin að afgreiða það erindi og vorum á leiðinni heim þá hringdi tengdasonur okkar og sagði okkur að við skyldum allavega gleyma því að koma Grindavíkurveginn því hann var farinn í sundur.“
„Við vorum ekkert á því að játa okkur sigruð og brunuðum út í Keflavík og þaðan út á Reykjanes og fórum þá leiðina inn í Grindavík. Við borðuðum kvöldmatinn sem við keyptum þarna í Costco og þá dansaði eiginlega bara kvöldmaturinn á borðinu. Þetta var orðið alveg með ólíkindum.
Svo einhvern tímann seinna um kvöldið þá játuðum við okkur bara sigruð. Við urðum að koma okkur út úr bænum því annars myndum við ekki sofa neitt, eins og þetta var orðið,“ segir Eiríkur. Sem fyrr segir lá leið þeirra til Selfoss, síðan á Kársnes áður en þau sneru aftur til Grindavíkur.
Eiríkur segir að það hafi verið dásamlegt að geta snúið aftur heim, heim til Grindavíkur. Lífið er þó ekki alveg eins og það var áður í Grindavík, því lítið af þeirra fólki er í bænum.
Ítarlega er fjallað um náttúruhamfarirnar í sérblaðinu 10. nóvember sem kom út í gær, laugardag.