Björgunarsveitir sinntu verkefnum á Akureyri, Siglufirði og Grenivík vegna fokveðurs í kvöld.
„Það var allt að verða vitlaust þarna á Norðurlandi,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.
Björgunarsveit hafi verið kölluð út á Grenivík þar sem þak á bóndabæ var að fjúka. Auglýsingaskilti á Glerártorgi á Akureyri og talsvert af lausamunum hafi fokið í fyrr í kvöld.
„Trampólín einhvers staðar uppi við Akureyrarkirkju, hjólhýsi á Hömrum og þakplötur bæði á Akureyri og Siglufirði þannig það er þó nokkuð um foktjón.“
Svo virðist þó sem að farið sé að róast niður og útköllum að fækka eftir því sem liðið hefur á kvöldið að sögn Jóns.