Segja má að allt á milli himins og jarðar hafi verið rætt á Heimsþingi kvenleiðtoga, þar á meðal stjórnmál, ástandið í heiminum og þátttaka kvenna í fjármálakerfinu.
Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Efnahags- og framfarastofnun, OECD, en ráðstefnan hófst í Hörpu í gær og lýkur í dag.
Áætlað var að rúmlega 400 alþjóðlegir kvenleiðtogar kæmu til Reykjavíkur til þátttöku.
Ragnheiður Elín hefur hjá þróunarsetri OECD unnið mikið að jafnréttismálum með áherslu á þróunarlöndin. Hún var fundarstjóri hliðarviðburðar á ráðstefnunni í gær þar sem þessi mál voru rædd, meðal annars hvað það er sem kemur í veg fyrir að jafnrétti náist. Bæði geta formleg lög og óformlegar venjur hamlað konum frá því að ná langt í starfi.
Ragnheiður Elín segir góðu fréttirnar þær að þróunarlöndin séu að nálgast þróuð ríki í þessum efnum. Bilið sé smám saman að minnka. Vísar hún þar í skýrslu sem er gefin út á fjögurra ára fresti þar sem staðan er mæld í 179 löndum.
Á móti kemur, segir hún, að bakslag hafi orðið í ýmsum málum.
„Það hefur orðið bakslag, sérstaklega hjá ungum karlmönnum sem eru minna jafnréttissinnaðir heldur en feður þeirra og afar. Það er þróun sem er mjög áberandi og hefur mikið verið rætt um hvernig er hægt að bregðast við og snúa þessu við til að stoppa þetta bakslag og færa þróunina aftur á réttar brautir öllum til hagsbóta,“ greinir Ragnheiður Elín frá.
Einnig hefur komið fram að í kringum 40% svarenda í nýlegri könnun á heimsvísu telja ennþá að karlar séu betri stjórnendur en konur og að ef skortur verður á störfum eigi karlar að ganga fyrir. „Þetta er mjög sláandi niðurstaða,“ segir hún og undrast þetta viðhorf árið 2024.
Hún segir þó jákvætt hversu Íslendingar eru framarlega á sviði jafnréttismála og að litið sé upp til þess sem hér hafi áunnist. Nefnir hún sem dæmi breytingar á fæðingarorlofslögum í kringum aldamótin. Þau hafi gert samfélagið á Íslandi jafnara.
Ragnheiður Elín segir andann hafa verið góðan í Hörpu þessa tvo daga en sjálf hefur hún tekið þátt í öllum Heimsþingunum til þessa. „Það eru einhverjir töfrar sem gerast þegar þessi hópur mætist,“ segir hún og nefnir að karlar séu einnig á meðal þátttakenda.
„Þetta er svo fjölbreyttur og áhugaverður hópur. Þetta er fólk úr stjórnmálalífi, listum, opinberri stjórnsýslu og einkageiranum. Þegar samtalið fer á svo víðan grunn frá mörgum löndum þá lærum við hvert af öðru og maður kemur alltaf bjartsýnni til baka eftir að hafa verið þessa tvo daga í þessum góða félagsskap,“ bætir hún við.
Ragnheiður Elín vill hrósa sérstaklega Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem er stjórnarformaður og einn af stofnendum Heimsþings kvenleiðtoga. „Það er stórkostlegt hvernig hún og hennar teymi eru að keyra þetta áfram af einskærri fagmennsku og metnaði.“
Lokapunktur Heimsþingsins verður síðan kveðjumóttaka í Sky Lagoon þar sem allir þátttakendur heimsækja lónið og láta fundarþreytuna líða úr sér.