Eins og að lesa glæpasögu eftir Arnald

Helgi ræddi við mbl.is um málið.
Helgi ræddi við mbl.is um málið. Samsett mynd/Árni Sæberg/Óttar

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands, telur ekki ólíklegt að hvalverndunarsamtök beri ábyrgð á verkkaupum af ísraelska njósnafyrirtækinu Black Cube. Hann segir tilganginn líklegast vera að hafa áhrif á ákvarðanatöku íslenskra stjórnvalda.

Þetta segir hann í samtali við mbl.is.

Ísra­elska njósna­fyr­ir­tækið Black Cube var að sögn Jóns Gunn­ars­son­ar ráðið til þess að afla gagna um hann í tengsl­um við hval­veiðar og tók upp sam­ræður við son hans, sem viku­ritið Heim­ild­in gerði sér svo mat úr.

Ríkisútvarpið greindi frá í gær að samkvæmt sínum heimildum væri Black Cube á bak við aðgerðina.

Líklega hvalverndunarsamtök sem fjármagna

Helgi segir að það geti kostað tugi milljóna króna að ráða svona njósnafyrirtæki og því hafi eflaust erlendir aðilar með mikla fjármuni á milli handanna ráðið Black Cube.

„Það hljóta að vera einhver hvalverndunarsamtök á bak við þetta. Manni finnst það líklegt þó að maður viti það ekki. Ég get ímyndað mér einhver alþjóðleg samtök, eins og hvalverndunarsamtök eða náttúruverndarsamtök. Þetta geta verið vel fjármögnuð samtök,“ segir hann.

Helgi telur ekki líklegt að Íslendingar séu á bak við slíkar aðgerðir og bendir á að ýmis náttúruverndarsamtök hafi úr miklum fjármunum að ráða.

„Maður hefur í sjálfu sér ekkert í höndunum um þetta, en þetta er langlíklegast finnst mér,“ segir Helgi.

Staldrar við blekkingarleikinn

Helgi kveðst staldra við þann mikla blekkingarleik sem um ræðir í þessu tilfelli. Er­lend­ur maður, sem kynnti sig sem sviss­nesk­an fjár­festi, hafði í september sam­band við son Jóns, sem er fasteigna­sali. Kvaðst hann hafa áhuga á fjár­fest­ingu í ís­lensk­um fast­eign­um, kom til landsins og sótti son Jóns á bifreið með einkabílstjóra og skoðaði nokkur verkefni um höfuðborgarsvæðið.

„Manni finnst ótrúlegt að hann hafi bara verið viðfangið. Mér finnst líklegra að þeir hafi verið með þessa nótu víðar í samfélaginu,“ segir Helgi.

Hann bendir á að miðað við fréttaflutning af málinu hafi undirbúningur hafist áður en ríkisstjórnin sprakk.

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur.
Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Ætlunarverkið að hafa áhrif á stjórnmál

Hann telur þó að mesti krafturinn hafi verið settur í aðgerðina eftir að stjórnin féll.

„Mér finnst líklegt að mesti krafturinn hafi verið settur í þetta þegar stjórnin féll og Jón var settur inn í matvælaráðuneytið. Þá hlýtur einhvern veginn krafturinn að koma fram. Vafalítið til þess að grafa undan þessari ákvörðun með einhverjum hætti, enda er búið að koma þessari upptöku á framfæri við fjölmiðla og rúmlega tvær vikur í kosningar.

Að koma í veg fyrir þessa ákvörðun, það hlýtur að vera markmiðið og ég býst við því að það muni takast því að nú eru hendur manna miklu bundnari,“ segir Helgi og bætir við:

„Þá hefur þessum aðilum tekist ætlunarverkið sitt, að hafa áhrif á stjórnmál á Íslandi.“

Sér ekki að lögreglan taki upp málið

Í fljótu bragði sér hann ekki að lögreglan muni taka upp málið að fyrra bragði.

„Hérna erum við með erlendan aðila sem býður einhverjum út að borða í viðskiptatengdu erindi og svo tala þeir frjálslega – hann kannski að gera sig meira gildandi [sonur Jóns] – og það er tekið upp og komið á framfæri til fjölmiðla.

Auðvitað er þetta eins og bíómynd eða glæpasaga eftir Arnald [Indriðason]. Allir þessir atburðir. Auðvitað finnst mér þetta óþægilegt því það er svo mikill blekkingarleikur þarna, afskipti af innanríkismálum – það er alveg klárt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka