Lögreglan á Vestfjörðum hafði samband við íbúa til að biðja þá um að dvelja ekki í herbergjum sem snéru með glugga upp að hlíð Eyrarfjalls.
Hafði lögregla samband við íbúa húsa ofan til við Hjallaveg á Ísafirði og í einu húsi við Hnífsdalsveg að beiðni ofanflóðadeildar Veðurstofu Íslands.
Ekki er talin ástæða til að rýma húsin heldur er einungis um varúðarráðstöfun að ræða í því skyni að reyna að hámarka öryggi.
Er fólk beðið um að vera ekki á ferð ofan við Hjallaveg, ofan við varnargarðana fyrir ofan bæinn eða í fjallshlíðum almennt uns veðurfar breytist.
Þá er einnig óheimilt að fara að aurskriðunum sem fallið hafa á veginum um Eyrarhlíð.