„Alvarlegt aðgerðaleysi“

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík suður, segir mennta- og barnamálaráðherra hafa sýnt „alvarlegt aðgerðaleysi“ þegar hann frestaði fyrirlagningu samræmdu könnunarprófanna án þess að hafa tryggt að eitthvað kæmi í stað þeirra.

„Fyrir vikið erum við með nokkurra ára gat í íslenskum grunnskólum þar sem engar samræmdar mælingar eru fyrir hendi. Þá ertu með skólastarf í ákveðnu blindflugi hvað þetta varðar,“ segir Þorbjörg og heldur áfram:

„Mér finnst þetta bara algjörlega óboðleg vinnubrögð af hans hálfu. Þarna hefði þurft að undirbúa málin betur.“

Hún var gestur Dagmála í síðustu viku, ásamt Bryndísi Haraldsdóttur, formanni allsherjar- og menntamálanefndar, þar sem menntamálin voru til umræðu.

Fyrirlagning samræmdu könnunarprófanna misfórst árið 2021. Hafa þau ekki verið …
Fyrirlagning samræmdu könnunarprófanna misfórst árið 2021. Hafa þau ekki verið lögð fyrir síðan. mbl.is/Karítas

Verðum að geta tekið samtalið þó framkvæmdin hafi klúðrast

Eftir að framkvæmd samræmdu könnunarprófanna misfórst ítrekað vegna tæknilegra örðugleika ákvað Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, að fresta prófunum með óformlegum hætti árið 2021.

Í tilkynningu Stjórnarráðsins í júlí það ár kom fram að hæfnimiðuð samræmd könnunarpróf yrðu lögð fyrir grunnskólanema vorið 2022. Það gerðist þó aldrei.

Með lagabreytingu árið 2022 fékk Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, samræmdu könnunarprófunum frestað með formlegum hætti til ársins 2025.

„Það má heldur ekki vera þannig að vegna þess að framkvæmdin klúðraðist, sem mér finnst reyndar vera efni í annað samtal líka, að þá ætlum við bara algjörlega að neita að eiga samtal um samræmd próf eða samræmdar mælingar, þegar þær eru hugsaðar út frá því að hér sé um að ræða stuðningstæki við barn, stuðningstæki við foreldri eða foreldra þess barns, stuðningstæki við skóla þess barns og stuðningstæki við markmið skólastjórnenda um að ná árangri, þá er þetta auðvitað gott tæki,“ segir Þorbjörg í Dagmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert