Logi Einarsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar og oddviti Samfylkingar í Norðausturkjördæmi, fordæmir skrif samflokksmanns síns, Þórðar Snæs Júlíussonar.
Var Logi spurður hvað honum fyndist um gömul skrif Þórðar Snæs, þar sem hann fór ófögrum og ósmekklegum orðum um konur.
„Mér finnst þetta agaleg skrif. Fordæmi þau í sjálfu sér. Hann biðst afsökunar á því.“
Logi sat, ásamt öðrum oddvitum Norðausturkjördæmis, fyrir svörum í X24 kjördæmaþætti Ríkisútvarpsins.
Hefur Þórður beðist afsökunar og borið fyrir sig að hann hafi verið ungur að aldri en margir hafa ekki fallist á þær útskýringar í ljósi þess að hann var á bilinu 24 til 27 ára þegar skrifin áttu sér stað.
Spurður hvort hann telji afsökun duga til segir Logi það þurfa að koma í ljós.
„Þetta eru ekki góð skrif og þarna birtast ekki hugguleg viðhorf en hann segir að hann sjái eftir þessu og að hann standi ekki fyrir þetta í dag.“