Margt býr í þokunni, sagði skáldið, og margt getur leynst í gömlum húsum. Hjónin Sif Björnsdóttir og Ingvar Högni Ragnarsson komust að því þegar þau réðust í viðgerð á ríflega 100 ára gamalli eign sinni í húsi sem Ingvar Gunnarsson, langafi Sifjar, kennari við Lækjarskóla, garðyrkjufræðingur og umsjónarmaður Hellisgerðis, byggði við Hverfisgötu í Hafnarfirði 1923. Malín Yrja, dóttir þeirra Sifjar og Ingvars, er af fimmtu kynslóð fjölskyldunnar sem býr í húsinu.
Vegna lekavandamála frá þaki þurfti að ráðast í framkvæmdir og gera við þakið. Eins og oft vill verða var vandinn meiri en leit út fyrir í fyrstu. „Í stuttu máli þurfti að rífa hæðina niður tilbúna undir tréverk,“ segir Ingvar, en meðal annars þarf að endurnýja baðherbergi frá grunni. Þegar klæðning á gólfi í risi var fjarlægð vegna leka niður í eldhús kom ýmislegt í ljós.
Á árum áður var gjarnan nánast allt sem hendi var næst notað sem einangrun í húsum og í þessu tilviki kenndi auk þess ýmissa grasa undir tréverkinu. „Þarna voru til dæmis gömul sendibréf frá konu, sem bjó hérna einu sinni, til frænku sinnar, gamall pensill, hálfur hurðarhúnn, tommustokkur og ýmislegt fleira.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.