Vill draga úr opinberu framlagi til stjórnmálaflokka

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eyþór

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, vill draga stórlega úr framlagi hins opinbera til stjórnmálaflokka. Vill hann í staðinn leyfa fyrirtækjum og einstaklingum að leggja stjórnmálaflokkum meira til.

Þetta kom fram í máli hans á kosningafundi Viðskiptaráðs sem haldinn var í Hörpu í dag. Yfirskrift fundarins var Horfum til hagsældar.

Sjálfstæðisflokkurinn fær mest

Framlög ríkisins til stjórnmálaflokka á þessu ári nema ríflega 692 milljónum króna. Upphæðin skiptist á milli flokkanna og fer eftir stærð þeirra.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk mest eða rúmar 158 milljónir en Sósíalistaflokkurinn fékk minnst eða 25,5 milljónir króna.

„Varðandi fjármál stjórnmálaflokka höfum við sveiflast öfganna á milli en mín skoðun er sú að við séum hlutfallslega komin með allt of hátt framlag frá ríkinu til reksturs stjórnmálaflokka. Við tókum 5% af flokkunum í minni fjármálaráðherratíð og skárum niður framlag til stjórnmálastarfsins en þetta er málaflokkur sem flokkarnir þurfa helst að ná saman um,“ sagði Bjarni.

Þurfa að fá heimildir til að bjarga sér sjálfir

Hann segir vont að sveifla heildarumhverfi stjórnmálaflokkanna á milli ríkisstjórna.

„Mín sýn er að við eigum stórlega að draga úr opinberu framlagi til stjórnmálaflokka en þeir þurfa þá að fá heimildir til að bjarga sér sjálfir. Fjárhæðamörkin varðandi hvað fyrirtæki eða einstaklingar mega leggja til stjórnmálastarfs eru allt of lág. Þau þarf að hækka.“

Frá þingfundi.
Frá þingfundi. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert