Félagar í björgunarsveitum hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg syrgja nú góðan félaga eftir banaslysið 3. nóvember þegar Sigurður Kristófer McQuillan Óskarsson lést á æfingu við Tungufljót.
Sigurður var formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ og hafði komið af miklum krafti inn í starfið, að sögn félaga hans. Hann var 36 ára gamall og lætur eftir sig unnustu og foreldra.
Ekki er ýkja langt síðan Sigurður hóf nýliðaþjálfun hjá björgunarsveitinni Kyndli, eða árið 2020, en hann varð fljótt afar virkur í starfinu. Einn nýliðaþjálfara hans segir Sigurð hafa verið einkar eftirminnilegan. Fyrst vakti athygli þjálfarans hversu brosmildur og jákvæður Sigurður var við fyrstu kynni. Hann segist smám saman hafa tekið eftir því að Sigurður hafi fengið dágóðan skammt af ofvirkni og björgunarsveitin notið góðs af orkunni því Sigurður hafi gengið rösklega í þau verk sem vinna þurfti hverju sinni.
Samkvæmt viðmælendum blaðsins hjá Landsbjörg var mörgum brugðið þegar sú harmafregn barst að Sigurður hefði látið lífið á æfingu. Björgunarsveitarfólki sé boðin áfallahjálp og önnur viðeigandi úrræði til að vinna úr áfallinu. Eins og sjá má hér í dálknum sem fylgir greininni eru banaslys fremur fátíð hjá björgunarsveitunum ef skoðað er tæpa hálfa öld aftur í tímann.
Við útför Sigurðar á mánudaginn kemur, 18. nóvember, munu félagar hans úr björgunarsveitinni standa heiðursvörð en fjölmargir vilja heiðra minningu Sigurðar með einhverjum hætti að sögn viðmælanda blaðsins. Sigurður hafi augljóslega haft mikla ánægju af starfinu og áhugi hans hafi smitað út frá sér hjá Kyndli. „Óhætt að segja að allir í Kyndli eru svo þakklátir fyrir að hafa kynnst þér og erum við betri persónur fyrir vikið,“ skrifaði félagi Sigurðar Kristófers meðal annars í minningarorðum á netinu.
Sigurður Kristófer fórst við æfingar í straumfljóti, eins og það er kallað. Innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar fer fram ýmiss konar þjálfun til að fólk geti verið í stakk búið til að takast á við þau verkefni sem bíða björgunarsveita. Þau geta verið geysilega krefjandi enda felur starfið í sér að fara út í storminn þegar almennir borgarar fara inn í hlýjuna, eins og björgunarsveitarmaður orðaði það við blaðið. Æfingin við Tungufljót á dögunum mun hafa verið hefðbundin þjálfun í því að bjarga fólki úr straumfljóti en atvikið er enn til rannsóknar.
Lesa má neinar um málið í Morgunblaðinu í dag