Þúsundir Íslendinga hafa í dag þreytt kosningapróf á vefnum Kjóstu rétt í von um að gera upp hug sinn um hvern listabókstaf best sé að leggja kross við í kjörklefanum í komandi alþingiskosningum. Á prófinu í ár þurfa flokkarnir að taka meira afgerandi afstöðu samanborið við próf síðustu kosninga.
Kjóstu rétt er óháður kosningavettvangur þar sem kjósendur geta kynnt sér málefni flokkanna. Vefsvæðið fæddist fyrir um 11 árum þegar aðstandendur þess voru enn í menntaskóla, en nú virðist vefsíðan orðin að mikilvægum vettvangi í kosningabaráttu íslenskra stjórnmálaflokka, sérstaklega fyrir minni flokkana.
Vefurinn virkar þannig að flokkar svara spurningum og senda inn gögn, sem eru síðan birt óbreytt á vefsvæðinu. „Við leiðréttum ekki stafsetningarvillur eða neitt, heldur er þetta frjálst svæði fyrir alla flokka,“ segir Kristján Ingi Mikaelsson, einn stofnenda MGMT ventures, í samtali við mbl.is en hann hefur haldið uppi vefnum ásamt félaga sínum Ragnari Þór Valgeirssyni.
Um er að ræða sjálfboðaverkefni sem er unnið í anda „open source“-stefnunnar, eða „opins hugbúnaðar“ eins og þýða mætti hugtakið á hinni ástkæru ylhýru. Öll gögnin eru því aðgengileg öllum.
Hugmyndin kviknaði í kosningunum 2013, en þá voru 15 flokkar í framboði og reyndist þá sérstaklega erfitt fyrir marga að ákveða sig. „Það vissi í raun enginn hvað átti að kjósa á þeim tíma og við strákarnir skelltum í þetta verkefni og í kjölfarið voru viðbrögðin fáránlega flott og mikil.“
Í hverjum kosningum síðan þá hafa þeir Ragnar endurvakið vefinn. Kristján segir að tugir þúsunda hafi farið inn á vefinn fyrsta árið og í síðustu þingkosningum árið 2021 hafi um 100 þúsund manns nýtt sér vefinn til að kynna sér málefni flokkanna, m.a. með kosningaprófi.
En þó Kjóstu rétt hafi í byrjun aðeins verið áhugamannaverkefni fá umsjónarmenn vefsins til sín sérfræðinga sem veita ráðgjöf. Þar má nefna að sérfræðingar úr stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands hafa verið fengnir til að aðstoða við gerð spurninga á kosningaprófinu.
Síðasti flokkurinn skilaði inn svörum á kosningaprófinu í gær og því var prófið loksins opnað á miðnætti. Nú þegar hafa níu þúsund manns þreytt kosningaprófið fyrir kosningarnar í ár, að sögn Kristjáns, jafnvel þó að það hafi í raun ekkert verið auglýst enn.
Þar til nú hafa flokkar verið með fimm skala kosningapróf og leyft flokkum sem og svarendum að vera hlutlaus í hinum ýmsu málum. En í ár ákváðu félagarnir að fara nýja leið og því geta flokkar ekki lengur borið fyrir sig hlutleysi. Kjósi þeir hlutleysi þurfa þeir að sleppa því að taka afstöðu í viðhlítandi málaflokk.
„Við erum að fá flokkana miklu betur til að taka afstöðu til málefna og t.d. vera ekki hlutlaus í helmingi [málefna],“ segir Kristján.
Kristján bendir á að kosningabarátta hafi breyst mikið í gegnum árin – í raun var hún gamaldags að hans mati. „Það voru eiginlega engir að nota samfélagsmiðla […] þar með talið okkar vefsvæði,“ segir hann. Hann nefnir að flokkarnir séu virkari nú en í síðustu kosningum að kynna sín málefni á sínum eigin vettvangi, t.d. vefsíðum flokkanna og á samfélagsmiðlum.
„Við setjum þetta í raun í loftið 2013 svo að við getum persónulega áttað okkur á því sem við getum kosið. Það vantaði miðlaðan upplýsingavettvang af því að sumir flokkar voru ekki einu sinni með vefsíðu,“ segir hann.
„Og litlu flokkarnir voru mjög ánægðir með þetta – að fá rödd – því að það er erfitt að komast að í fjölmiðlum og þáttum og öllu því. Og ég finn eiginlega ekki fyrir því í þessum kosningum að neinn sé að kvarta yfir því í þessum kosningum.“
Og nú virðist sem að flokkarnir líti á þennan vettvang sem afar mikilvægan. „Stóru flokkarnir eru núna bara „on it“ og senda um leið og við förum að pressa á þá. Þeir vita hvað þetta er mikil maskína.“
Brátt mun einnig opnast vettvangur á síðunni þar sem hægt er að bera öll svör flokkanna saman, sjá hvað þeir eiga sameiginlegt og hvað ekki.
Tæknin hefur einnig verið notað á erlendri grundu, þá í kosningum í Slóveníu árið 2022.
„Það var aðili sem kom í skiptinám til Íslands og hafði séð þessa síðu. Hann setti sig í samband við okkur og spurði hvort hann mætti ekki örugglega nota kóðann,“ segir Kristján, sem svaraði Slóvenanum játandi.
„Það var mjög skemmtilegt að sjá það verða til.“