Lögreglan á Vestfjörðum hvetur fólk til að fara varlega þrátt fyrir að vegir hafi verið opnaðir þar. Spáð er úrkomu en þó eitthvað minni en þeirri sem var fyrr í vikunni.
„Það virðist vera spáð aðeins minni úrkomu en engu að síður hvetjum við fólk til að fara með gát undir hættulegum hlíðum og það sé beðið með fjallgöngur, allavega í hættulegustu hlíðunum,“ segir Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum.
Hann nefnir að mikið sé ekið um þessa vegi á morgnana enda um eitt og sama atvinnusvæði að ræða og fólk á leiðinni bæði í vinnu og í skóla, til dæmis.
Lögreglan mun funda áfram með Veðurstofunni og Vegagerðinni í dag þar sem staðan verður metin og skoðað hvort gera þurfi einhverjar sérstakar ráðstafanir.
Hlynur kveðst reikna með því að óvissustig verði áfram á svæðinu fram á morgundaginn en staðan verður metin jafnóðum.
Spurður hvort fólk hafi hlýtt tilmælum lögreglunnar segir hann flesta hafa gert það en einhverjir hafi þó séð ástæðu til að fara og skoða aðstæður í hlíðum. Slíkt sé þó alls ekki skynsamlegt.