Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og íslenska ríkið skrifuðu fyrr í dag undir kjarasamning í húsakynnum ríkissáttasemjara. Um níu af hverjum tíu hjúkrunarfræðingum landsins heyra undir samninginn.
Þetta staðfestir Ari Brynjólfsson, kynningarstjóri félagsins, í samtali við mbl.is.
Hann segir að nú verði farið í að kynna samninginn fyrir félagsfólki og í kjölfarið fari fram atkvæðagreiðsla um hann.
Hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir frá því í apríl, þegar skammtímasamningur til eins árs rann út. Nýi samningurinn gildir til fjögurra ára.