Landsréttur snéri við Covid-dómi

Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til …
Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til að ógilda úrskurð Persónuverndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur snéri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í mars í fyrra þegar ógiltur var úrskurður Persónuverndar um að Íslensk erfðagrein­ing hafi brotið gegn per­sónu­vernd­ar­lög­um í þrem­ur mál­um sem vörðuðu notk­un blóðsýna Covid-19-sjúk­linga.

Persónuvernd áfrýjaði dómi héraðsdóms frá því í fyrra og hefur Landsréttur nú komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið tilefni til að ógilda úrskurðinn.

Óumdeilt að samþykkis var ekki aflað

Samkvæmt dómi Landsréttar er málsvörn Íslenskrar erfðagreiningar fyrir héraðsdómi um valdaþurrð Persónuverndar hafnað. Þá féllst Landsréttur á það með Persónuvernd að blóðsýni hefðu verið tekin úr sjúklingum og þau notuð í þágu vísindarannsóknar áður en vísindasiðanefnd veitti leyfi fyrir viðbót við hana. Óumdeilt væri að samþykki sjúklinga fyrir blóðsýnatöku hafi ekki verið aflað á þeim tíma sem blóðsýnatakan fór fram.

Málsástæðum Íslenskrar erfðagreiningar sem byggði á neyðarrétti var einnig hafnað. Þá var ekki talið að slíkir annamarkar hefðu verið á málsmeðferð Persónuverndar að fallist yrði á kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar.

ÍE taldi niðurstöðu Persónuverndar ranga

Per­sónu­vernd komst að þeirri niðurstöðu í nóvember 2021 að Íslensk erfðagrein­ing og Land­spít­al­inn hefðu brotið per­sónu­vernd­ar­lög þegar blóðsýni úr sjúk­ling­um með Covid-19 á Land­spít­ala hefðu verið send til rann­sókna hjá ÍE án leyf­is vís­indasiðanefnd­ar. Um­rædd sýni voru tek­in 3.-7. apríl 2020, en vís­indasiðanefnd samþykkti rann­sókn­ina 7. apríl.

Íslensk erfðagrein­ing stefndi Per­sónu­vernd og Land­spít­al­an­um í nóv­em­ber árið 2022, vegna úr­sk­urðar Per­sónu­vernd­ar í þrem­ur mál­um sem vörðuðu skiman­ir og öfl­un samþykk­is á notk­un blóðsýna til vís­inda­rann­sókna.

Fyr­ir­tækið taldi niður­stöðu Per­sónu­vernd­ar ranga og líta framhjá því að fyr­ir­tækið hafi verið að vinna fyr­ir sótt­varna­lækni og Land­spít­al­ann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert