Sjávarútvegshúsi verður ekki breytt

Ekki fékkst leyfi hjá borginni til að klæða húsið með …
Ekki fékkst leyfi hjá borginni til að klæða húsið með hvítri loftræstri ál- eða steinklæðningu. mbl.is/Arnþór

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur hafnað beiðni um útlitsbreytingu á Sjávarútvegshúsinu sem stendur við Skúlagötu 4.

Fyrir fund skipulagsfulltrúa var lögð fram beiðni Yrkis arkitekta ehf. um að fá að klæða bygginguna að utan með hvítri loftræstri ál- eða steinklæðningu. Húsið er í dag múrklætt.

Fram kemur í umsögn verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa að innan Hringbrautar sé í aðalskipulagi skilgreind svokölluð hverfisvernd.

Markmið hverfisverndar er að varðveita og styrkja heildaryfirbragð gamla bæjarins sem gerir hann að einstökum og eftirsóknarverðum stað í alþjóðlegu samhengi. Einnig að varðveita og styrkja söguleg og fagurfræðileg einkenni.

Markmiðinu skal náð með því að gætt verði ýtrustu varúðar við þróun byggðar innan svæðisins og að meginmarkmiðum borgarverndunarstefnu verði fylgt eftir í hvívetna. Í því felast meðal annars breytingar á ytra útliti bygginga og lóða.

Breyting á klæðningu hússins samræmist ekki ákvæðum hverfisverndar innan Hringbrautar.

Skúlagata 4 er með glæsilegri byggingum í eignasafni Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna (FSRE). Húsið er byggt árið 1961 eftir teikningu Halldórs H. Jónssonar arkitekts fyrir starfsemi Fiskirannsókna Háskólans.

Tveimur hæðum bætt við

Upphaflega átti húsið að vera fjórar hæðir, en skömmu áður en framkvæmdir hófust var ákveðið að bæta 5. og 6. hæð við. Flutti Ríkisútvarpið á efstu tvær hæðirnar. Sjávarútvegsráðuneytið var í húsinu um árabil.

Undanfarin misseri hefur staðið yfir stórviðgerð á húsinu, innan sem utan. Engin starfsemi hefur verið í húsinu síðan viðgerðin hófst.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert